Morðingi sem pyntar börn

Björgvin Franz Gíslason fer með hlutverk skólastýrunnar Karítasar Mínherfu sem …
Björgvin Franz Gíslason fer með hlutverk skólastýrunnar Karítasar Mínherfu sem að sögn leikstjóra uppfærslunnar er morðingi sem pyntar börn. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

„Ef við erum almennilegt fólk þá tengjum við við börn og þau opna á okkur hjörtun. Við finnum til ábyrgðar gagnvart umkomuleysi þeirra,“ segir Bergur Þór Ingólfsson, leikstjóri Matthildar sem frumsýndur var á Stóra sviði Borgarleikhússins fyrir skemmstu. Í viðtali við leikstjórann sem birtist í Morgunblaðinu á frumsýningardag, þ.e. síðasta föstudag, lýsti hann einni aðalpersónu verksins sem morðingja sem pynti börn. 

Matthildur er fjórði mannmargi söngleikurinn sem Bergur Þór leikstýrir í Borgarleikhúsinu frá 2013, en fyrri uppfærslur eru Mary Poppins, Billy Elliot og Blái hnötturinn. Samhliða hefur hann einnig sett upp eins manns verkið Jólaflækju og ungmennasýninguna Hamlet litla. Spurður hvort mikill munur sé á því að leikstýra íburðarmiklum og fjölmennum sýningum eða fábrotnari og fámennari sýningum svarar Bergur Þór því neitandi. „Í grunninn snýst þetta alltaf um að segja sögu og eiga erindi við áhorfendur. Í mínum huga snýst leikhúsið um að eiga í sambandi við þá sem hlusta og horfa, sem aftur virkjar mennskuna í okkur.

Af hverju fannst þér mikilvægt að segja sögu Matthildar á núverandi tímapunkti?

„Það að lítil stúlka standi uppi í hárinu á yfirvaldinu og segi satt og rétt frá og þrói með sér hæfileikann til að sigrast á yfirvaldinu talar beint inn í það sem hefur verið að gerast hérlendis síðustu tvö árin og einnig síðustu áratugina og árhundruðin þegar horft er til femínismans. Ég lít á Matthildi litlu sem dætur mínar fjórar,“ segir Bergur Þór og bendir á að í lok eins lagsins syngi Matthildur: „Óveðrið sigrað hef ég“. „Ein dóttir mín er með setninguna „Ég er stormurinn“ tattúverað á bringunni á sér. Þannig að verkið talar sterkt til mín persónulega.

Leikstjórinn Bergur Þór Ingólfsson.
Leikstjórinn Bergur Þór Ingólfsson. mbl.is/Árni Sæberg

Ofan á það bætist hvað frásagnargleði Roalds Dahl er ótrúlega mikil. Honum finnst svo gaman að segja sögur. Hann er líka hrekkjóttur höfundur og hlífir okkur ekkert við grimmdinni, því það er rosaleg grimmd í verkinu,“ segir Bergur Þór og bendir sem dæmi á að heimilisaðstæður Matthildar séu barnaverndarmál. „Það er allt í lagi að segja svoleiðis lagað upphátt, það er hvernig hlutirnir eiga ekki að vera,“ segir Bergur Þór og bendir á að grínið og söngurinn sé meðal til þess að segja frá hræðilegum hlutum.

Talandi um grimmd, þá hugsaði ég oft við lestur bókarinnar hvernig þið hygðust leysa yfirnáttúrulega hæfileika Matthildar og grimmd skólastýrunnar. Væntanlega eru tæknilausnir þessa verks ekki erfiðari en það sem á reyndi í t.d. Mary Poppins og Bláa hnettinum?

„Nei, við búum auðvitað að reynslunni vegna fyrri sýninga. Við reynum því að vera eins trú bókinni og hægt er og því verður börnum kastað um sviðið og Matthildur hreyfir hluti með huganum. Við pössum okkur hins vegar alveg á því að fara ekki á tæknifyllirí til að halda hjartanu og grunninum í sögunni, þó að við séum auðvitað að stefna að því að bjóða upp á veislu fyrir augu og eyru.“

Leikhúsið síðasta skjólið

Hvað getur þú sagt mér um leikmynd Ilmar Stefánsdóttur. Lá alltaf beint við að bækur yrðu jafn áberandi og raunin er í leikmyndinni?

„Matthildur hefur allt sitt uppeldi úr bókum. Eins og ég nefndi áðan eru sögur mikilvægar til þess að við könnumst við okkur sem manneskjur. Bækur eru mjög sterkt tákn fyrir sögur. Í leikmyndinni eru líka sjónvörp. Þó að foreldrar Matthildar fyrirlíti bækur og reyni að upphefja sjónvörp, þá erum við alveg hrifin af sjónvörpum, tölvum og símum með snertiskjá sem miðli sé það notað rétt og til samskipta,“ segir Bergur Þór og bendir á að leikhúsið sé orðið einn síðasti staður samtímans þar sem fólk þurfi að slökkva á öllum tækjum og vera tilbúið að mæta annarri manneskju augliti til auglitis.

„Þannig má segja að leikhúsið sé orðið síðasta skjólið í nútímanum. Annað konsept í leikmyndinni er að bókahillurnar snúa upp á sig eins og erfðamengið. Vitað er að sögur og lífsreynsla fólks, samanber áfallasögu kvenna sem er verið að rannsaka núna og þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á eftirlifendum helfararinnar, fara inn í erfðamengið og genin. Ég er amma mín. Um leið erum við auðvitað að búa til leikrými sem gaman er að horfa á, gott er að vera í og gagnlegt er að segja söguna í.“

Jafnslæm og Ríkharður þriðji

Af hverju er farin sú leið í sýningunni að láta karlmann, þ.e. Björgvin Franz Gíslason, leika hina hræðilegu skólastýru Karítas Mínherfu? Geta konur ekki leikið illmenni? Eða er meðvitað verið að skapa ákveðna fjarlægð?

„Auðvitað geta konur verið illmenni og til eru leikkonur á Íslandi sem gætu leikið þetta hlutverk. Enda geta allir góðir leikarar leikið öll góð hlutverk. Að hluta til eru það praktískar ástæður sem stjórna valinu á leikaranum enda er hlutverkið skrifað sönglega séð fyrir barítón. Með því að láta karlmann leika skólastýruna fæst líka ákveðið leyfi á illmennið. Karítas Mínherfa er sem manneskja jafnslæm og Ríkharður þriðji. Hún er morðingi sem pyntar börn. Þegar við bjóðum fjölskyldunni upp á slíka frásögn þurfum við ákveðna fjarlægð og hún fæst meðal annars með því að láta karlmann leika konu. Og svo er Björgvin bara kjörinn í hlutverkið.“

Í ljósi þess að skólastýran er á pari við illmennið Ríkharð þriðja liggur beint við að spyrja fyrir hvaða aldur þið hugsið uppfærsluna?

„Við hugsum þetta fyrir alla fjölskylduna og allan aldur. Ég myndi segja að allir sem geta horft á Lion King í fullum gæðum ættu að geta horft á Matthildi, enda jafn skelfilegir hlutir sem gerast.“

Líkt og í Bláa hnettinum fara börn með mikinn meirihluta hlutverkanna í Matthildi. Er mikill munur fyrir þig sem leikstjóra að leikstýra fullorðnum atvinnuleikurum og börnum?

„Já, það er munur. Ég segi stundum að leiklistin og leikarastarfið sé 85% handverk. Þú þarft bara að læra textann þinn, rekast ekki í húsgögnin, snúa í rétta átt, syngja rétta tóna og vinna að grunni persónunnar og samskiptum hennar við aðrar persónur. Allt er þetta handverk. Síðan eru þessi 15% sem er allt hið ósýnilega og listræna sem skiptir þegar upp er staðið öllu máli.“

Tilbúin að játast hæfileikunum

Ertu þar að tala um sviðsnærveru, sem er varla hægt að kenna?

„Jú, það er hægt að iðka og æfa flest. Það tekur hins vegar mjög mislangan tíma hjá fólki að ná árangri. Ef hægt er að iðka og æfa dyggðir þá er hægt að iðka og æfa allt, en það gæti tekið suma 20 ár og aðra 50 ár. Við höfum ekki svo langan tíma í leikhúsinu,“ segir Bergur Þór og áréttar að af þeim sökum sé mikilvægt að velja réttu áhöfnina áður en lagt sé af stað.

Rakel Björk Björnsdóttir í hlutverki sínu sem kennslukonan Fríða Hugljúfa …
Rakel Björk Björnsdóttir í hlutverki sínu sem kennslukonan Fríða Hugljúfa og Isabel Dís Sheehan sem Matthildur í samnefndum söngleik sem byggir á sögu Roalds Dahl. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

Það er stundum sagt að 90% vinna leikstjórans felist í því að skipa rétt í hlutverkin, jafnt innan sem utan sviðs. Ertu sammála því?

„Ég ætla ekki að telja það í prósentum, en það skiptir alveg rosalega miklu máli að velja, ekki bara rétta fagfólkið í hlutverkin heldur líka rétta hópinn til að segja söguna. En munurinn á börnum og fullorðnum er að börn eru auðvitað ekki búin að fara í háskólanám. Ég þarf að láta þau fara í gegnum háskólanám á tíu vikum. Við þurfum að kenna þeim, sem ekki áður hafa starfað í leikhúsi, bæði hugtök og vinnubrögð og allt sem gerist á sviðinu. Börn eru að vísu ótrúlega opin í dag. Reynslan mín af því að vinna jafnmikið með börnum og ég hef gert á síðustu misserum er sú að þau búa yfir mun meira sjálfstrausti en börn almennt gerðu fyrir 40 árum þegar ég var lítill og eru mun tilbúnari að játast hæfileikum sínum en í gamla daga þegar enginn átti að vera að trana sér fram.

Beislun á hinu ósýnilega

Við tölum stundum um töfrabarnið í listamanninum. Þegar verið er að búa til leiksýningu þarf að ríkja traust í hópnum því annars lokast töfrabarnið inni og skilar bara handverki. Börnin eru töfrabörn, þannig að þau eru opin í sjálfu sér, en utan um það þarf að búa til strúktúr. Okkar hlutverk er að virkja þá fallegu lífsorku og vilja sem fylgir börnum og beina þeim eiginleikum inn í sýninguna,“ segir Bergur Þór og rifjar upp að í byrjun æfingatímans hafi honum orðið á þau mistök að nefna orðið „aga“ þegar hann ræddi við allan leikhópinn.

„Ég nefndi að nauðsynlegt væri að hafa aga í vinnuferlinu og þá var eins og slokknað hefði á hópnum. Allur lífsviljinn, orkan, krafturinn og leikgleðin, allur þessi dásamlegi fjársjóður varð að ösku fyrir framan mig. Ég sá því að ég þyrfti strax að leiðrétta mig og útskýrði fyrir börnunum að agi væri ekki leiðinlegur. Agi er leið til að gera það skemmtilega skemmtilegra, beisla orkuna og beina henni í sameiningu í ákveðna átt þannig að leikurinn fari ekki út um allt. Í raun er agi bara samstilling. Þau skildu þetta strax og það kviknaði aftur á hópnum. Það er ekki hægt að skikka fólk til árangurs í listum. Það þarf að eiga samtal til að beina hinu listræna eina leið með þeim hætti að allir eigi hlutdeild í útkomunni. Þetta er í raun beislun á hinu ósýnilega. Og í því ferli verður að vera gaman.“ 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert