Gefa ekkert upp um orkupakkann

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hyggst ekki tjá sig um orkupakkann …
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hyggst ekki tjá sig um orkupakkann umfram það sem hann sagði í samtali við mbl.is í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins ræddi meðal annars um þriðja orkupakkann á fundi sínum í dag, en sex þingmenn flokksins hafa opinberlega lýst efasemdum vegna málsins. Samkvæmt heimildum mbl.is er búist við því að frumvörp vegna þriðja orkupakkans verði kynnt öðru hvoru megin við helgi, en ekki er ljóst nákvæmlega hvað í þeim felst.

Ítrekaðar tilraunir mbl.is til þess að afla upplýsinga um hvenær kynning verður haldin og hver niðurstaða fundar Sjálfstæðismanna var hefur ekki skilað árangri. Heimildarmenn mbl.is telja að komið hafi verið verulega til móts við þá gagnrýni sem málið hefur hlotið.

Aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra upplýsir að ráðherrann hyggist ekki tjá sig umfram það sem kom fram í samtali hans við mbl.is í gær. Þá sagði hann að stefnt sé að því að frumvörp vegna þriðja orkupakkans verði lögð fram áður en frestur til þess að koma með þingmál rennur út 30. mars.

Þingflokkar ríkisstjórnarflokkanna funduðu sameiginlega vegna málsins í gær þar sem utanríkisráðherra og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, fóru yfir stöðu málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert