Vill fjallahjólastíg niður Esjuna

Esjan er eftirsótt útivistarsvæði.
Esjan er eftirsótt útivistarsvæði. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fjallahjólastígur niður Esjuna gæti orðið að veruleika ef tillaga þess efnis verður samþykkt hjá Reykjavíkurborg. 

„Esjan er frábært útivistarsvæði og er jafnframt þekktasta útivistarsvæði okkar Reykvíkinga. Ég sá tækifæri í að nýta þetta svæði betur. Fjallahjólafólk notar nú þegar stígana. Hægt væri að búa þannig um að fleiri gætu notið Esjunnar,” segir Katrín Atladóttir borg­ar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokks­ins og flytjandi tillögunnar. 

Hjólastígurinn lægi frá Gunnlaugsskarði í Esju að Mógilsá í Kollafirði. Fundin yrði heppileg staðsetning fyrir hjólastíginn og hann yrði lagður í samstarfi við Skógræktarfélag Reykjavíkur, fjallahjólara (til dæmis Íslenska fjallahjólabandalagið) og aðra hagsmunaaðila, eins og kemur fram í tillögunni 

Katrín bendir á að fjallahjólreiðamenn geta notað stíga í Skálafelli sem er eingöngu opið á sumrin en að öðru leyti eru ekki þar til gerðir stígar fyrir fjallahjólreiðamenn á höfuðborgarsvæðinu. Til samanburðar eru um 20 km af fjallahjólastígum á Akureyri. Hjólastígar eru öðruvísi en göngustígar. Þeir eru lengri og liggja í hlykkjum ólíkt göngustígum á fjöll sem gjarnan liggja stystu leið upp á topp.  

Tillagan var lögð fyrir skipulags- og samgönguráð í gær. Tillögunni var vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa og skrifstofu umhverfisgæða.

Ég er bjartsýn á að þetta verði að veruleika. Það tóku allir jákvætt í þetta,“ segir Katrín. Ekki liggur fyrir nánar hver kostnaður yrði en það liggur fyrir eftir umsögnina.

Fjallahjólreiðar í Öskjuhlíð.
Fjallahjólreiðar í Öskjuhlíð. mvbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert