Ástand sem getur ekki varað lengur

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Eggert

Dagurinn hefur verið ákaflega annasamur að sögn Kristófers Oliverssonar, formanns FHG – fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu og eiganda og framkvæmdastjóra Center Hotels.

Hóteleigendur og hátt settir yfirmenn hótela í Reykjavík hafa verið að í allan dag, sumir síðan á miðnætti, við að sinna störfum á hótelum vegna verkfalls hótelstarfsmanna. Því lýkur á miðnætti.

„Það er búið að vera mikið að gera og menn hafa haft í mörg horn að líta. Við erum búin að ljúka herbergjunum, þannig að nú eru veitingastaðirnir eftir,“ segir hann og kveðst vera á leiðinni í uppvaskið.

Sprækur til miðnættis

„Þetta er ekkert ástand sem getur varað lengur. Við treystum því að það verði búið að semja áður en næsta hrina kemur.“

Spurður út í muninn á störfum hóteleigenda og annarra í dag miðað við í síðasta verkfalli segir Kristófer að starfsfólk í gestamóttöku sé núna einnig í verkfalli, sem þýðir að hefja þurfti störf á miðnætti. Sjálfur byrjaði hann klukkan 6 í morgun. „Ég er svo heppinn að ég þurfti ekki að koma fyrr en sex í morgun. Ég er sprækur til miðnættis“.

Spurður nánar út í stöðu mála segir Kristófer: „Við erum leika okkur með fjöreggið okkar. Allir þeir sem vilja sjá vita hvað er að gerast í ferðaþjónustunni og fluginu. Það er ekki nema 15 aðilar sem er verið að hamast á. Þetta er eins rangt og hugsast getur, að taka svona fáa aðila fyrir og reyna að slátra þeim,“ segir hann.

Kristófer bætir við að verkfallsaðgerðirnar snúist um hótel í miðborginni vegna þess að auðvelt sé á þann hátt að ná athygli fjölmiðla. Slíkt sé afar ósanngjarnt gagnvart þeim hótelum sem um ræðir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert