Veður gengur niður

Úrkoma í Reykjavík gæti um tíma farið yfir í rigningu …
Úrkoma í Reykjavík gæti um tíma farið yfir í rigningu á morgun. mbl.is/RAX

Gular og appelsínugular viðvaranir sem hafa verið í gildi eru ýmist dottnar út eða detta út á allra næstu klukkustundum. „Þetta er allt á réttri leið,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á vakt á Veðurstofu Íslands.

Enn er talsvert hvasst við norðausturströnd landsins en dregur úr vindi þegar líður á nóttina. Hins vegar má búast við talsverðum éljagangi á landinu vestanverðu fram eftir nóttu.

Dregið hefur úr útköllum björgunarsveita eftir því sem liðið hefur á kvöldið, en hátt í hundrað björgunarsveitarmenn tóku þátt í útköllum víðs vegar um landið. Að sögn Óla Þórs var hvassviðri mest á austanverðu landinu og sérstaklega uppi á heiðum, þar sem einhverjir bílstjórar lentu í vandræðum.

Þá var úrkoma 36 mm í Neskaupstað í formi snjós eða slyddu og þykir talsvert mikið magn.

„Það skýrist ekki almennilega fyrr en á morgun hvort það sé þannig snjór í fjöllunum að það valdi áhyggjum af snjóflóðum eða slíku. Einhverjar hengjur gætu hafa orðið til eða gil orðið full svo það getur vel verið að eitthvað hreyfist við því á morgun,“ segir Óli Þór. Engar tilkynningar um slíkt hafa borist enn sem komið er.

Veðurspá fyrir morgundaginn er ágæt og úrkoma bundin við Suður- og Vesturland. Hlýnar eftir hádegi og úrkoma í Reykjavík gæti orðið í rigningarformi um tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert