„Amma kenndi mér allt“

Þuríður Yngvadóttir þekkir margar trjátegundir. Þá þekkingu hefur hún frá …
Þuríður Yngvadóttir þekkir margar trjátegundir. Þá þekkingu hefur hún frá ömmu sinni og alnöfnu. mbl.is/Hari

Blóðberg, birkitré, reynitré, rifsber, rófur, furutré og Rauði krossinn. Þekking hinnar ellefu ára gömlu Þuríðar Yngvadóttur vakti mikla athygli þeirra sem horfðu á fræðsluþáttinn Hvað höfum við gert? sem sýndur var í Ríkissjónvarpinu síðasta sunnudag. Þar fór hún létt með að bera kennsl á myndir af öllu þessu og ýmsu öðru til, hluti sem margir fullorðnir myndu klóra sér í höfðinu yfir.

Þátturinn, sem er í umsjón Sævars Helga Bragasonar, fjallar um loftslagsmál og í 2. þætti var m.a. fjallað um hvernig mannfólkið hefur fjarlægst náttúruna og hvernig aukin neysla og offramleiðsla gengur á auðlindir jarðar og ýtir undir loftslagsbreytingar. Sem dæmi var sýnt hversu vel fróðleiksfús börn þekkja fjölmörg vörumerki en ekki jafn auðveldlega nöfn trjáa og grænmetistegunda.

Þuríður skar sig hins vegar úr. Hún þekkti ekki aðeins vörumerki Nike, Coca-Cola og Facebook, svo dæmi séu tekin, heldur einnig öll trén, blóm og grænmeti sem henni voru sýndar myndir af. Og þessa þekkingu á hún að miklu leyti ömmu sinni og alnöfnu að þakka.

Í myndskeiðinu hér að neðan má sjá Þuríði leysa þrautina í þættinum. Greinin heldur áfram fyrir neðan myndskeiðið.


Þuríður býr ásamt tveimur yngri systkinum og foreldrum sínum, verkfræðingunum Yngva Guðmundssyni og Sigrúnu Melax, í Úlfarsárdal. Af svölunum í stofunni er fallegt útsýni yfir gróinn dalinn og holtin og hæðirnar í kring. Náttúran er því ekki langt undan en það var þó í Mosfellsbænum, þar sem fjölskyldan bjó áður, sem Þuríður kynntist henni vel. „Þar var fullt af trjám og við amma fórum saman í gönguferðir og hún kenndi mér allt,“ segir hún brosandi. „Svo fer ég líka oft með ömmu að selja jólatré.“ Í því verkefni sé auðvitað lykilatriði að þekkja muninn á greni og furu.

Tré er nefnilega ekki bara tré.

Yngvi segir Þuríði móður sína taka það hlutverk sitt að fræða barnabörnin um náttúruna alvarlega. Hún er líka sérfræðingur á því sviði, vinnur hjá ORF líftækni, var í stjórn Skógræktarfélags Íslands og er nú formaður Landgræðslusjóðs.

Þuríður yngri og eldri ásamt Ólöfu litlu systur.
Þuríður yngri og eldri ásamt Ólöfu litlu systur. Ljósmynd/Úr einkasafni

Þuríður hin yngri segist hafa gaman af því að læra nýja hluti og að sögn föður hennar er hún nokkurs konar „límheili“. Stundum komi það honum á óvart hvaða upplýsingar hún hafi drukkið í sig. Hann hafi til að mynda furðað sig á því að hún þekkti blóðberg er henni var sýnd mynd af því í sjónvarpsþættinum. Enn og aftur mátti rekja kunnáttuna til Þuríðar ömmu. „Þær höfðu þá farið að tína blóðberg við sumarbústaðinn síðasta sumar og gert sér te,“ útskýrir Yngvi og brosir.

Hann viðurkennir að sennilega megi eitthvað af allri þessari þekkingu Þuríðar rekja til þeirra foreldranna. „Ætli við séum ekki stanslaust að ýta einhverju að henni og ræða við hana um allt milli himins og jarðar. Stundum fær hún nú alveg nóg af því,“ segir hann og horfir hlæjandi á dóttur sína sem kinkar rólega kolli.

Yngva finnst hlutverk foreldra í dag ekki síst vera það að reyna að hafa stjórn á og draga úr öllu því áreiti sem börn verði fyrir. Þannig reyni þau Sigrún til dæmis að beina athygli dóttur sinnar að sjónvarpsefni sem sé henni bæði til gagns og gamans. „Og það má ekki gleyma að sýna umhverfi sínu athygli, náttúrunni og náttúruöflunum. Að útskýra og fræða, reyna í sameiningu að skilja.“

 „Ég á uppáhaldsdýr,“ svarar Þuríður spurð hvað það sé í náttúrunni sem heilli mest. „Þau eru tvö, köttur og refur.“ Ref hefur hún séð með eigin augum, í húsdýragarðinum að Hraðastöðum í Mosfellsdal. Hann er þó langt í frá mest framandi dýrið sem hún hefur barið augum því fjölskyldan bjó í Suður-Afríku fyrir nokkrum árum. Þar voru foreldrarnir í námi og Þuríður gekk í leikskóla. Afríska dýralífið er vissulega fjölskrúðugra en hið íslenska og sá Þuríður þar meðal annars krókódíla, ljón og fiðrildi. Eftirminnilegasta dýrið sem hún komst í tæri við þar var þó kónguló. „Riiiisastór kónguló,“ rifjar hún upp.

Þuríður í safaríi í Suður-Afríku þar sem hún bjó ásamt …
Þuríður í safaríi í Suður-Afríku þar sem hún bjó ásamt foreldrum sínum. Ljósmynd/Úr einkasafni

Yngvi er vélaverkfræðingur og Sigrún iðnaðarverkfræðingur. „Pabbi vinnur við að búa til rafmagn og heitt vatn með jarðhita,“ upplýsir Þuríður. Umhverfismál koma mikið við sögu í störfum foreldranna og því hefur loftslagsmál oft borið á góma á heimilinu.

Þuríði fannst mjög gaman að taka þátt í litlu tilrauninni í sjónvarpsþættinum. Hún er líka áhugasöm um loftslagsbreytingar. „Mér finnst að við ættum að gera eitthvað í málinu, það er ekki nóg að gera bara þætti og skrifa undir samninga,“ segir hún ákveðin. Þáttur sem þessi gæti þó vakið fólk til umhugsunar um hvernig við göngum um jörðina. Ýmsar breytingar má að mati Þuríðar gera á neysluvenjum. „Ég vil að við hættum að nota svona mikið plast og að nota olíu og bensín á bíla,“ segir hún. Fyrir nokkrum árum skipti fjölskyldan yfir í rafmagnsbíl og tvinnbíl. „Við reynum að leggja eitthvað af mörkum,“ segir Yngvi.

Þuríður býr í Úlfarsárdal og þar er stutt í náttúruna.
Þuríður býr í Úlfarsárdal og þar er stutt í náttúruna. mbl.is/Hari

Þuríður er í 6. bekk í Dalskóla. Þar finnst henni skemmtilegast að læra leiklist og stærðfræði. Hún segir ekki mikla kennslu í náttúrufræðum í skólanum og að meira mætti gera af því. Eftir skóla þykir henni skemmtilegt að spila tölvuleiki og horfa á sjónvarpið og þá verða dýralífsþættir oft fyrir valinu.

Þegar hún verður stór langar hana að verða verkfræðingur, eins og mamma og pabbi. „Maður ræður samt alveg hvað maður gerir,“ segir faðir hennar við hana og þau hlæja bæði.

Þuríður hefur séð mörg framandi dýr. Hér er hún í …
Þuríður hefur séð mörg framandi dýr. Hér er hún í Suður-Afríku og ef vel er að gáð má sjá ljón fyrir aftan hana. Ljósmynd/Úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert