Nemendur hafa þurft að taka frí að læknisráði

Edda Borg, tónlistarkona og skólastjóri.
Edda Borg, tónlistarkona og skólastjóri. mbl.is/Eggert

Edda Borg ólst upp í Bolungarvík og flutti 16 ára gömul til Reykjavíkur. Hún gifti sig 17 ára og byrjaði að búa í Hollywood. Tónskóla Eddu Borg stofnaði hún rúmlega tvítug en skólinn fagnar 30 ára afmæli í vor. Hún greindist með MS-sjúkdóminn árið 2007 og segir jákvæðni mikilvæga í þeirri baráttu og daglegt verkefni að halda sig réttum megin við línuna.

Dagskrá barna þétt skipuð

Hvað hefur breyst á þessum tíma frá því að þú stofnaðir skólann?

„Mér finnst börn í dag hafa alltof mikið að gera. Ég veit ekki af hverju sú þróun hefur orðið, hvort það sé vegna þess að foreldrar þurfa að fá frekari pössun fyrir börnin sín, en dagskrá barna er ofsalega þétt skipuð í dag. Við höfum lent í því að nemendur hafa þurft að taka sér frí frá námi að læknisráði. Það er búið að setja þau í svo mikið að þau bara höndla það ekki. Foreldrar í dag tala um að barnið sé að fara á píanó- eða fiðluæfingu rétt eins og það sé að fara á fótbolta- eða handboltaæfingu. Þá þýðir það það að barnið fer í tónlistarskólann og er með kennararum sínum í þann tíma sem það þarf að vera og kemur svo aftur eftir tvo daga því börnin eru oftast tvisvar í viku og svo bara gerist ekkert. Tónlistarnám er þannig að þú kemur og hittir kennarann þinn og ferð í gegnum ákveðið efni, hann kennir þér og leggur þér fyrir það sem þú átt að æfa þig á heima. Þú æfir þig og kemur svo aftur í tímann. Það er ekki nóg að mæta bara í tónlistarskólann og ætla að vera hljóðfæraleikari, þú verður að æfa þig.“
Henni finnst skilningurinn á þessu hafa minnkað með árunum.

„Það er alls ekki gert ráð fyrir tímanum sem barnið þarf til að æfa sig. Eftir því sem miðar áfram í tónlistarnáminu þá þarf að sinna því betur en það er eins og það sé ekki gert ráð fyrir þessum tíma í dag, ég hef smá áhyggjur af þessari þróun. Þetta er mesti munurinn sem ég finn.“

Íþróttaviðburðir teknir framyfir tónlistarviðburði

Henni finnst börn í dag einangraðri en þau voru. „Þau eru frekar heima, kannski í tölvu, frekan en úti að leika sér með félögunum. Samskipti barna eru ekki eins og þau voru fyrir 30 árum. Mér finnst að foreldrarnir reyni að stuðla að því að börnin þeirra séu í meiri félagsskap en ekki endilega á réttum vettvangi,“ segir Edda og útskýrir að samspilsæfingar geti verið góður félagsskapur fyrir börn.

„Þá hittir barnið aðra krakka á svipuðu reiki og þau spila öll saman. Krakkarnir eru að vinna að ákveðnum verkefnum saman. Þau eru ekki í samkeppni eins og oft í íþróttum,“ segir Edda sem hefur upplifað ákveðna árekstra milli íþrótta og tónlistarnáms og að íþróttaviðburðir séu frekar teknir framyfir tónlistarviðburði.

„Þetta keppnisskap, að það þurfi allir að vinna, vera sigurvegarar, það er ekki svo ríkt hjá okkur í tónlistinni. Þarna eru allir að skapa eitthvað í sameiningu. Það er gott að þjálfa sig í því að hlusta á hvað hinn aðilinn er að spila og taka mið af því heldur en að þurfa bara að hugsa um sjálfan sig.“

Þetta er brot úr forsíðuviðtali við Eddu Borg sem birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert