„Ríkisstjórnin í spennitreyju“

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar segir ríkisstjórnina knúna til þess …
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar segir ríkisstjórnina knúna til þess að grípa til niðurskurðar sem bitnar á þeim sem síst skyldi. mbl.is/Eggert

„Við erum bara að lesa þetta núna en okkur sýnist fátt vera nýtt nema kannski það að það er að koma í ljós það sem fjármálaráð varaði við, að útgjaldareglan veldur því að ríkisstjórnin er komin í spennitreyju og hún þarf að grípa til niðurskurðarhnífsins,“ segir Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.

„Þetta gerir það að verkum að það eru veikustu hóparnir sem þurfa að blæða,“ segir Logi og bætir viða að honum þykir Það hraustlega gert að kynna áætlun upp á 5 þúsund milljarða sem flest hagsmunasamtök og stofnanir séu óánægð með.

Þá segir hann að ljóst sé að framlög er varða húsnæðisstuðning muni lækka næstu fimm árin og sama eigi við framlög til menningar- og æskulýðsmála. Bendir hann einnig á að vaxtabætur hafi lækkað og framlög til framhaldsskóla haldist óbreytt, auk meiri skerðingar barnabóta.

Sveiflujafnandi hlutverk

„Svo er auðvitað skörp hækkun framlaga til samgöngumála, en það lækkar næstu ár á eftir og verða sjö milljörðum lægri,“ útskýrir formaðurinn.

„Við höfum talið það að það væri hlutverk ríkisvaldsins að geta sveiflujafnað eftir hvernig hefur árað í hagkerfinu. Í uppsveiflunni stóð ríkisstjórnin í því að veikja tekjustofna og lækka skatta, í stað þess að safna upp afgangi til þess að nýta í niðursveiflu eins og núna,“ segir Logi og staðhæfir að áætlunin sé merki um hægristefnu.

Jafnframt gagnrýnir hann forsendur áætlunarinnar sem gerir ráð fyrir áframhaldandi hagvexti.

Ekki sammála forgangsröðun

„Þessi kulnun í hagkerfinu er alveg augljós. Það eru þarna stórir óvissuþættir og reynt að taka tillit til þeirra, en auðvitað blint í sjóinn rennt,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í samtali við mbl.is um fjármálaáætlunina.

Hún segir ríkisbúskapinn vissulega hafa gengið afskaplega vel. „Ótrúlegt hvað okkur hefur tekist að rísa hratt eftir hrun, en það breytir ekki þeirri staðreynd að við myndum forgangsraða fjármunum öðruvísi.“ Inga segist sannfærð um að líflegar umræður verða í þinginu í vikunni.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert