Íbúðir á Kirkjusandi í sölu í vor

Sólborg. Stefnt er að afhendingu íbúða í þessu fjölbýlishúsi á …
Sólborg. Stefnt er að afhendingu íbúða í þessu fjölbýlishúsi á næsta ári. Teikning/THG arkitektar og Studio Arnhildur Pálmadóttir

Fyrstu íbúðirnar í nýju hverfi á Kirkjusandi fara í sölu í vor. Stefnt er að afhendingu fyrstu íbúða um næstu áramót.

Félagið 105 Miðborg fer með uppbyggingu á fjórum af níu reitum á Kirkjusandi. Félagið er fagfjárfestasjóður í rekstri og stýringu Íslandssjóða.

Sjávarborg. Framkvæmdir hefjast á næstu vikum.
Sjávarborg. Framkvæmdir hefjast á næstu vikum. Teikning/Schmidt Hammer Lassen (SHL)

Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða, segir uppbygginguna tvískipta. Annars vegar sé byggt á reitum B, C og D í fyrsta áfanga og hins vegar á reit F í síðari áfanga. F-reitur er stærstur í fermetrum talið en þar verður m.a. 10 hæða hótelbygging. Framkvæmdir við D-reit hófust í maí í fyrra en þar verða 77 íbúðir í fjölbýlishúsinu Stuðlaborg. Framkvæmdir við fjölbýlishúsið Sólborg á reit C hófust í ágúst í fyrrasumar. Á næstu vikum hefjast svo framkvæmdir við skrifstofuhúsið Sjávarborg á B-reit.

Hönnuðu Skuggahverfið

Danska arkitektastofan Schmidt Hammer Lassen (SHL) hannar íbúðahúsið Stuðlaborg og skrifstofuhúsið Sjávarborg ásamt VA arkitektum. SHL hannaði Skuggahverfið og varð í 2. sæti í hönnunarsamkeppni um tónlistarhúsið Hörpu.

Stuðlaborg. Mikið er lagt upp úr hönnun íbúðanna.
Stuðlaborg. Mikið er lagt upp úr hönnun íbúðanna. Teikning/Schmidt Hammer Lassen (SHL)

Kjartan Smári segir stofuna því þekkja hverfið og Reykjavík vel.

Stofan hafi komið að mörgum heimsþekktum verkefnum. T.d. hafi hún hannað konunglega bókasafnið Svarta demantinn í Kaupmannahöfn, eina þekktustu byggingu Skandinavíu.

Ákveðið hafi verið að fela stofunni að hanna bæði Sjávarborg og Stuðlaborg við Sæbrautina til að byggingarnar myndu kallast á. Lóðréttar línur muni einkenna Stuðlaborgina en láréttar línur Sjávarborgina. Jafnframt muni framhlið úr gleri fyrir miðri Sjávarborginni gefa þá tilfinningu að efri hlutinn svífi á þeim neðri. Húsið verður glerbygging sem er brotin upp með svartri álklæðningu. Stuðlaborgin verður hins vegar með gylltri álklæðningu og stórum svörtum steinplötum.

Sérhönnuð loftræsting

Kjartan Smári segir farnar ýmsar nýjar leiðir við hönnunina og að Stuðlaborg verði eitt vandaðasta íbúðarhúsið í hverfinu. „Í Stuðlaborginni verða ýmis nýnæmi í íslenskum íbúðahúsum. Til dæmis verða öll rými að fullu loftræst inn og út. Því þarf ekki að opna glugga til að fá ferskt loft, auk þess sem loftræsting tryggir betri loftgæði og er góð vörn gegn raka og ryki. Mikið er lagt upp úr stórum gluggum til að þetta einstaka útsýni njóti sín sem best og fólk geti opnað stofuna hjá sér út á sjó,“ segir Kjartan Smári.

Þriðja húsið í fyrsta áfanganum hjá Íslandssjóðum er sem áður segir fjölbýlishúsið Sólborg á C-reit.

Þar verða 52 íbúðir sem snúa til suðurs og eru byggðar í kringum opið torg með verslunum á jarðhæð. THG arkitektar og Studio Arnhildur Pálmadóttir hanna húsið.

Kjartan Smári segir hér meira horft til þess að byggja fjölbreyttar og vel hannaðar íbúðir. Áherslan sé á að íbúar njóti birtu og sólar. Margar íbúðir verði með stórum þakgörðum.

Á jarðhæð verður matvöruverslun og segir Kjartan Smári viðræður við rekstraraðila hafnar. Það mál sé þó trúnaðarmál í bili.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 22. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert