Kom í veg fyrir slys með snarræði

Olíuflutningabifreið Skeljungs fór út af veginum á Hellisheiði í morgun. …
Olíuflutningabifreið Skeljungs fór út af veginum á Hellisheiði í morgun. Aðgerðir hafa staðið yfir frá því í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðgerðir standa enn yfir á Hellisheiði þar sem olíuflutningabifreið frá Skeljungi fór út af veginum um kl. 9 í morgun. Vegagerðin ákvað að loka Hellisheiði til austurs á meðan slökkvilið og aðrir vibragðsaðilar athafna sig á vettvangi. Ökumaður flutningabílsins kom í veg fyrir slys með því að bregðast hratt við.

Vegagerðin sendi frá sér tilkynningu rétt fyrir klukkan 10 þar sem kom fram að verið væri að loka veginum yfir Hellisheiði meðan bifreiðin er fjarlægð af svæðinu. Búist er við að lokunin standi eitthvað fram yfir hádegi. Er vegfarendum er bent á að fara um Þrengslin meðan á aðgerðum stendur.

Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, segir í samtali við mbl.is að unnið sé að því að dæla um 40.000 lítrum af olíu úr flutningabílnum. Það verði að gera áður en menn hefjast handa við að koma bifreiðinni aftur upp á veg. Engin olía hefur lekið á veginn að sögn Péturs.

Brunavarnir Árnessýslu sendu mannskap strax á vettvang, en starfsmenn á vegum Skeljungs vinna nú að því að dæla olíunni af bílnum. „Þetta eru vanir menn þarna hjá fyrirtækjunum og þetta gengur hratt og vel. En þetta tekur auðvitað sinn tíma,“ segir Pétur.

Óhappið varð á Hellisheiði skammt frá Hveradölum um kl. 9 …
Óhappið varð á Hellisheiði skammt frá Hveradölum um kl. 9 í morgun. Þeim sem eru á austurleiðinni er bent á að fara Þrengslin á meðan aðgerðir standa yfir. Kort/Map.is

Hann segir að óhappið hafi orðið á Hellisheiði við afleggjarann að Hellisheiðarvirkjun, skammt frá skíðaskálabrekkunni í Hveradölum. Þar ekur fólksbifreið inn á aðalveginn og í veg fyrir flutningabifreiðina sem var á leið til austurs. „Til þess að forða árekstri þá keyrir hann [ökumaður flutningabílsins] út af,“ segir Pétur. 

„Það má segja að með snarræði ökumannsins tókst að forða slysi,“ segir Pétur enn fremur. Bifreiðin hafnaði utan vegar, sem fyrr segir, en fór ekki á hliðina. Ljóst sé að þörf sé á öflugum tækjabúnaði til að ná henni aftur inn á veginn. Pétur segir erfitt að segja til um hvenær aðgerðunum muni ljúka á vettvangi, en vonandi verði það í kringum eittleytið.

Það gengur á með éljum á heiðinni að sögn Péturs og það blæs, en ekkert sem truflar aðgerðir á vettvangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert