„Minnumst helfararinnar“

Miðjarðarhafið hefur orðið dánarstaður tíu þúsund flóttamanna á þremur árum.
Miðjarðarhafið hefur orðið dánarstaður tíu þúsund flóttamanna á þremur árum. AFP

Dauðahaf samtímans er Miðjarðarhafið en um tíu þúsund manns á leið til lífs hafa drukknað þar á þremur árum. Gæta þarf að því hvernig við tölum um fólk sem er að leita þess að komast í skjól, til lífs, segir Morten Kjærum, framkvæmdastjóri Raoul Wallenberg-stofnunarinnar. Minnumst helfararinnar og afleiðinga þess að flokka fólk í ákveðna hópa; gyðinga, múslima, sígauna. 

Hatursorðræða hefur verið mikið í umræðunni síðustu misseri og ekki síst síðustu viku eftir hryðjuverkaárásina á Nýja-Sjálandi og vaxandi gyðingahatur í mörgum ríkjum Evrópu sem og Bandaríkjunum. 

Hún snúist um hatur í garð minnihlutahópa. Hvort heldur sem þeir eru gyðingar, sígaunar eða múslimar. Við flokkum jafnvel þá sem eru á flótta með orðum eins og flóttamaður, hælisleitandi, farandfólk í stað þess að tala um manneskjur sem þurfa á vernd að halda, segir Kjærum. 

Eitt af því sem heyrist æ oftar í heimalandi Kjærum, Danmörku, og Svíþjóð, þar sem hann starfar, er aðlögun innflytjenda og að hún hafi mistekist í stað þess að horfa á það jákvæða sem fylgi fjölbreytni. Þetta þekki hann í starfi sínu víðs vegar um Evrópu undanfarin ár. 

Ég hef séð þúsundir og aftur þúsundir innflytjenda af öllum trúarbrögðum og með ólíkt litaraft gefa svo margt til þeirra samfélaga þar sem þeir búa í Evrópu,“ segir Kjærum og tók sem dæmi ungar múslimakonur í háskólanámi í Danmörku, Noregi, Bretlandi. Þær stundi þar nám með kynsystrum sínum líkt og eðlilegt er. Hann gefur líka lítið fyrir uppblásnar frásagnir af aukinni glæpatíðni þar sem innflytjendur búi í stað þess að frekar sé horft til félagslegrar stöðu þeirra sem fremji glæpi. 

Andras Hamori og Morten Kjærum ásamt fjölskyldu Hamori.
Andras Hamori og Morten Kjærum ásamt fjölskyldu Hamori. Árni Sæberg

Hatursorðræða sundri líkt og sjá megi í Póllandi þar sem gyðingum fækkar stöðugt vegna hatursorðræðu í þeirra garð sem fái að blómstra óáreitt. Þetta snúist ekki bara um hatursorðræðu í garð gyðinga, múslima og sígauna heldur hvernig hatur gegn minnihlutahópum er notað til þess að grafa undan lýðræði innan ríkja eins og Ungverjalands í dag. Til að mynda með því að draga úr frelsi fjölmiðla, dómstóla, akademíunnar og svo mætti lengi telja. Þetta sjáist víðar í Evrópu um þessar mundir í formi þjóðernispopúlisma sem beinist gegn grundvallaratriðum lýðræðisins. Stjórnskipunar sem Evrópa hefur áratugum saman reynt að verja til þess að koma í veg fyrir að íbúar álfunnar þurfi ekki að upplifa að nýju hörmungar seinni heimsstyrjaldarinnar fyrir rúmum 70 árum.  

Kjærum var meðal þeirra sem fluttu erindi á hádegisverðarfundi á vegum félags- og barnamálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar, og Transnational Iceland á föstudag. Þar deildi Andras Hamori sögu sinni  minningum barns um helförina. 

Líf Andras Hamori breyttist til frambúðar vorið 1944 þegar Þjóðverjar réðust inn í Ungverjaland. Sænski stjórnarerindrekinn Raoul Wallenberg bjargaði lífi hans með því að afhenda föður hans sænskt vegabréf en talið er að Wallenberg hafi bjargað lífi tugþúsunda gyðinga með þessum hætti.

Audrey, dóttir Andras Hamori.
Audrey, dóttir Andras Hamori. mbl.is/Árni Sæberg

Að sögn dóttur Andras Hamori, Audrey, ólst hún upp í Boston í Bandaríkjunum og vissi sem var að þau ættu sér öðruvísi sögu en flestir nágrannar þeirra. Faðir hennar var innflytjandi frá Ungverjalandi og móðir hennar frá Þýskalandi. Hún segir að þau systkinin hafi vitað hluta af sögu þeirra en ekki allt. Hvernig sultur var daglegt brauð og bærinn sem móðir þeirra ólst upp í var jafnaður við jörðu. Þar á meðal heimili hennar og fjölskyldan hefði misst allt sitt.

Faðir þeirra hafi ekki treyst sér til þess að segja þeim frá afdrifum sinnar fjölskyldu fyrr en þau voru komin á fullorðinsár. Minningarnar voru of sárar til þess að geta talað um þær og hann sé nýfarinn að geta tjáð sig opinberlega um þær en þess má geta að Andras Hamori hélt upp á 85 ára afmælið hér á Íslandi um helgina ásamt afkomendum sínum og eiginkonu, Lielu.

Andras Hamori segir að þegar hann var að alast upp hafi fjölskyldan búið við góð kjör en faðir hans var doktor í efnaverkfræði og rak sitt eigið fyrirtæki. Allt breyttist þegar þýski herinn gerði innrás í Ungverjaland í mars 1944. Öllum skólum var lokað og heimurinn sem hann þekkti hvarf og kom aldrei aftur.

Minning um helförina – skór sem urðu eftir á bakka …
Minning um helförina – skór sem urðu eftir á bakka Dónár þegar eigendur þeirra höfðu verið skotnir til bana. Wikipedia/Nikodem Nijaki

Á aðeins nokkrum vikum voru rúmlega 400 þúsund gyðingar fluttir á brott í útrýmingar- og þrælkunarbúðir nasista, þar á meðal fjölskylda Andras. Fjölskyldan var fyrst send í fangabúðir í Búdapest og síðan sundrað. Andras og systir hans, sem var fjórum árum eldri en hann, voru send á sama stað, faðir þeirra í þrælkunarbúðir en móðir hans og amma voru sendar til Auschwitz auk fleiri ættingja. 

Raoul Wallenberg starfaði í Búdapest á vegum sænskra stjórnvalda og er talið að hann hafi bjargað lífi tuga þúsunda gyðinga í Ungverjalandi. Wallenberg útbjó sænsk vegabréf og fór með þau í fangabúðir gyðinga undir því yfirskyni að kanna hvort þar væru sænskir ríkisborgarar fyrir mistök. Þar laumaði hann að gyðingum sænskum vegabréfum og sagði þá sænska ríkisborgara.

Kjærum segir að Wallenberg hafi jafnvel farið inn í lestarvagnana sem voru að fara frá Búdapest til Auschwitz og laumað sænsku vegabréfi í vasa fólks. Hikaði síðan ekki við að segja að viðkomandi væri sænskur og bað fólk um að kíkja í vasa sinn hvort það væri ekki örugglega með skilríkin þar.

Andras Hamori. Á bak við hann sést mynd af móður …
Andras Hamori. Á bak við hann sést mynd af móður hans. Hún lést í Auschwitz. mbl.is/Árni Sæberg

Andras Hamori dvaldi um tíma ásamt föður og systur á griðastað á vegum Wallenberg í Búdapest en alls voru 10 þúsund gyðingar hýstir í 32 húsum á vegum Svíans. Þessi hús nutu diplómatískrar friðhelgi en þau vissu sem var að þetta var aðeins tímabundið skjól. Systir Andras var ásamt 21 gyðingastúlku tekin höndum og þeim raðað upp við bakka Dónár. Þeim var gert að fara úr skónum og síðan voru þær skotnar hver af annarri. Hún var 16 ára gömul.

Að sögn Morten Kjærum voru gyðingar mjög oft teknir af lífi við Dóná. Þeir bundnir þrír og þrír saman og síðan var sá sem var í miðjunni skotinn og ýtt við honum. Það þýddi að allir þrír lentu í ánni þar sem hinir tveir drukknuðu en um leið spöruðust byssukúlur. Aðeins þurfti eina kúlu til að drepa þrjá.

Wallenberg og félagar hans reyndu oft að ná fólki upp úr ískaldri ánni nokkru neðar og tókst að bjarga fjölmörgum mannslífum á þann hátt þrátt fyrir hættuna sem fylgdi því.

Á þessum tíma var orðið erfitt um vik fyrir Þjóðverja að flytja gyðinga út úr Búdapest þar sem Rússar sátu um borgina. Því var nauðsynlegt að drepa þá innan borgarinnar, ekki í gasklefum eða með þrælkunarvinnu.

Þrotlausri baráttu Wallenberg við að bjarga mannslífum lauk með því að hann var handtekinn af Sovétmönnum og væntanlega tekinn af lífi í Lubyanka-fangelsinu árið 1947. Móðir hans og stjúpfaðir sviptu sig bæði lífi árið 1979, buguð af óvissunni um afdrif sonar síns en hálfsystir hans er á lífi.

París árið 2019.
París árið 2019. AFP

Skilaði Kjærum kærum kveðjum frá henni á fundinum á föstudag til Andras Hamori og bauð honum að koma í heimsókn til sín í Stokkhólmi en helst sem fyrst því hún er orðin 98 ára gömul.

Árið 1991 fyrirskipuðu stjórnvöld í Rússlandi rannsókn á afdrifum Wallenbergs. Niðurstaða hennar var sú að hann hefði verið tekinn af lífi í Lubyanka-fangelsinu árið 1947. Hvorki kom fram hvers vegna hann var líflátinn né hvers vegna yfirvöld í Sovétríkjunum lugu til um tildrög dauða hans. Almennt er álitið að þessi skýring sé rétt. Það breytir ekki því að fjölmörg vitni töldu sig hafa rekist á Wallenberg í sovéskum fangelsum allar götur fram til ársins 1987. Það er óstaðfest.

Hamori á enn skjölin frá Raoul Wallenberg, bréf frá systur hans og bréf frá vini sem var með móður hans og ömmu í Auschwitz. Þar létust þær báðar. Móðir hans var 48 ára gömul. Að sögn Hamori er enn of sárt fyrir hann að lesa þessi bréf, því fékk hann eiginkonu sína, Lielu, til þess að lesa bréfin fyrir gesti í Iðnó. Síðustu kveðjur systur hans og móður til fjölskyldunnar.

Andras Hamori lauk meistaranámi í rafmagnsverkfræði í Búdapest árið 1955 en eftir seinni heimsstyrjöldina var Ungverjaland undir stjórn Sovétríkjanna og árið 1949 var það gert að kommúnísku einræðisríki undir stjórn Mátyás Rákosi og Kommúnistaflokks Ungverjalands.

Í október 1956 hófust mótmæli stúdenta í Búdapest og mörkuðu upphaf ungversku uppreisnarinnar. Andras Hamori var einn þeirra sem tók þátt í mótmælunum þar sem öryggislögreglan skaut á unga fólkið. Andras Hamori tókst að forða sér úr landi en hann fór fótgangandi yfir landamæri Austurríkis og komst þaðan til Bandaríkjanna þar sem hann fékk hæli og hefur alla tíð búið þar síðan. 

AFP

Morten Kjærum segir mikilvægt að halda sögum sem þessum til haga. Að gleyma ekki og tryggja að þetta gerist aldrei aftur. Að ungt fólk um alla Evrópu þekki söguna og læri af henni. Ekki sé öllum gefið að bregðast rétt við líkt og Wallenberg gerði í Búdapest á sínum tíma. Það voru ekki bara liðsmenn SS-sveita Hitlers sem tóku þátt í glæpum gegn mannkyninu sem framdir voru í Ungverjalandi í seinni heimsstyrjöldinni því Ungverjar sjálfir áttu sennilega mestan heiðurinn í að segja til þeirra minnihlutahópa sem þóttu réttdræpir á þessum tíma og um leið að drepa þá. 

AFP

Kjærum segir að á fimmtudaginn hafi hann verið minntur óþyrmilega á grimmdarverk í garð minnihlutahópa á fundi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf. Þar flutti Andrew Gilmour, aðstoðarframkvæmdastjóri mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, ávarp en hann var nýverið í Líbýu.

Gilmour greindi frá viðtölum við flóttafólk sem hefur verið bjargað úr fangabúðum í Líbýu. Allt þetta fólk hafi sömu sögu að segja: Öllum: konum, körlum, drengjum, stúlkum, hafi verið nauðgað. Mörgum ítrekað og þau pyntuð. Með rafmagni og jafnvel símum. Því þau voru neydd til þess að hringja í fjölskyldur sínar sem þurftu að hlýða á sársaukavein ástvina sinna og ættingjum þeirra sagt að pyntingarnar myndu halda áfram þangað til lausnargjald yrði greitt.

„Þetta er árið 2019,“ sagði Kjærum á fundinum í Iðnó og minnti á samstarfssamninga ríkja Evrópusambandsins við Líbýu og Tyrkland um endursendingar flóttafólks þangað gegn greiðslu. 

Kjærum segir að á sama tíma og efnahagslega hafi Evrópubúar sennilega aldrei haft það jafn gott og nú. Samt sem áður lítum við undan og björgum ekki drukknandi fólki vegna pólitískra ákvarðana þrátt fyrir grunvallarrétt hverrar manneskju til lífs. „Við sýnum ekki sanna samstöðu með öðru fólki heldur lítum undan.“

Með samningi Evrópusambandsins við Tyrki vissu evrópskir stjórnmálamenn að þeir væru að færa tyrkneskum yfirvöldum síðasta múrsteininn sem á vantaði til að loka landamærum landsins við Sýrland, segir Kjærum.

„Hvað ætli margir hafi dáið á þessum landamærum?“ spyr Kjærum og bætir við „mannúð snýst um að bjarga mannslífum. Samt sem áður er mannúðarsamtökum eins og Læknum án landamæra bannað að bjarga fólki frá drukknun á Miðjarðarhafi. Hvað með ef Austurríki hefði lokað landamærum sínum við Ungverjaland árið 1956 þegar Andras fór yfir þau? Hvað með þá sem flúðu Bosníu yfir til Króatíu þar sem þeim var meinað að halda áfram för sinni. Við munum öll Srebrenica,“ segir Kjærum.

AFP

Vandinn sem við búum við í dag er kominn til vegna aðgerðaleysis gærdagsins. Aðgerðaleysi okkar í dag mun valda krísum morgundagsins og þannig viðhöldum við mynstri sem verður ekki rofið nema með aðgerðum stjórnmálamanna. Árum saman var þeim tjáð að það yrði að gera eitthvað í til að mynda Tyrklandi þar sem fólk þjáist,“ sagði Kjærum og vitnaði í minnisbækur sínar frá Evrópuþinginu þar sem hann hafi skrifað aftur og aftur „þögn“. Jafnvel eftir að António Guterres, sem þá var framkvæmdastjóri Flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) og nú framkvæmdastjóri SÞ, hafði flutt þrumandi ræður yfir þingmönnum um æpandi aðgerðaleysi þeirra. „Enginn sagði orð, ekki orð,“ segir Kjærum, „og framhaldið þekkjum við öll. Fólk á flótta streymdi til Evrópu og við sáum hverjar afleiðingar aðgerðaleysis eru.“

Gestir á fundinum í Iðnó.
Gestir á fundinum í Iðnó. mbl.is/Árni Sæberg

Kjærum er danskur lögfræðingur og áður en hann tók við stjórn mannúðarstofnunar Wallenberg í Svíþjóð var hann framkvæmdastjóri Evrópustofnunar grundvallarmannréttinda (e. European Union Agency for Fundamental Rights, FRA) í Vín.

Stofnuninni var komið á fót árið 2007 til að veita helstu stofnunum ESB og aðildarríkjum þess ráðgjöf og sérfræðiálit um grundvallarmannréttindi við framkvæmd reglna og laga sambandsins og getur hún því einungis unnið að málum sem heyra undir verkahring Evrópusambandsins. Þau mál sem stofnunin fjallar hvað mest um varða mismunun, aðgang að réttlátri málsmeðferð, kynþáttafordóma og útlendingahatur, gagnavernd, réttindi fórnarlamba glæpa og réttindi barna. Hann er einnig fyrrverandi framkvæmdastjóri Mannréttindastofnunar Danmerkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert