Fái hvorki að rukka vexti né kostnað

Það er lántakandans að bera því við að íslensk lög …
Það er lántakandans að bera því við að íslensk lög gildi um smálánið þegar kröfubréfið berst. Fæstir neytendur gera sér hins vegar grein fyrir þessu. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Geri lánveitandi smáláns kröfu á lántaka um kostnað umfram lögboðið hámark ættu lög að banna honum að rukka bæði vexti og kostnað af láninu. Þetta er skoðun starfshóps um endurskoðun á starfsumhverfi smálánafyrirtækja, sem telur þetta vera öruggustu leiðina til að fá smálánafyrirtæki til að fylgja íslenskum lögum.

Hákon Stefánsson, formaður starfshóps um endurskoðun á starfsumhverfi smálánafyrirtækja, kynnti skýrslu starfshópsins á ráðstefnu um ungt fólki og lánamarkaðinn sem haldin var á Grand hóteli í morgun.

Sagði Hákon það góða við smálánin er þau fyrst komu á markað hér á landi fyrir sex árum hafa verið að allt í einu hafi neytendum staðið lánafyrirgreiðsla til boða á skömmum tíma og með einföldum hætti. „Kostnaðurinn var hins vegar gríðarlega hár, útbreiðslan nokkur en hún takmarkaðist við ákveðinn hóp lántakenda. Núna sex árum síðar eru smálánin enn til staðar. Þau eru hins vegar ekki í boði frá íslenskum lögaðilum, heldur einum erlendum lögaðila sem er alfarið með starfsemi sína á netinu.“

Þá fari markaðssetning lánveitandans, líkt og lánastarfsemin sjálf, aðallega fram í gegnum netið og sé oft með nokkuð ágengum hætti.

Sagði Hákon að heilt yfir fylgdu þeir innlendu aðilar sem veita lán í gegnum fjarsölu, sem smálán eða skyndilán falla undir, ákvæðum laga og stunduðu starfsemi með þeim hætti sem lög boða. „Ein undantekning, og hún er mjög gróf, er smálánafyrirtæki sem er með starfsaðstöðu í Danmörku,“ sagði Hákon „Það hafa verið miklar umræður um starfsemi þessa fyrirtækis og hún hafði raunar áhrif á skipan þessa hóps,“ sagði hann.

Hákon Stefánsson, formaður starfshóps um endurskoðun á starfsumhverfi smálánafyrirtækja, segir …
Hákon Stefánsson, formaður starfshóps um endurskoðun á starfsumhverfi smálánafyrirtækja, segir skýrt í huga starfshópsins að íslensk lög gilda um íslenska lánþega smálána.

Kastaði hann fram þeirri spurningu hvort erlendur aðili geti veitt íslenskum neytendum lán og ekki virt íslensk lög. Og sagði því næst skýran skilning starfshópsins að dönsk skráning og lánveitingar í gegnum netið fríuðu lánveitandan ekki því að fylgja íslenskum lögum.

„Það er skýrt í huga starfshópsins að íslensk lög gilda,“ sagði Hákon.

Neytandans að bera við íslenskum lögum

„Lántakinn þarf þó að krefjast þess og þegar innheimtubréfið berst þá þarf að bera því við að íslensk lög gildi,“ sagði Hákon og kvað þetta vera rót vandans. „Sá hópur sem lánin tekur er ekki meðvitaður um þetta.“ Við núverandi aðstæður sé það lántakandans að  bera mótmælin og rökin fyrir sig og það sé nokkuð sem fæstir neytendur myndu átta sig á.

Hákon benti á að erfitt sé að leggja mat á lánveitendur smálána þar sem fyrirtækin eru ekki eftirlitsskyld og ber því ekki, líkt og til að mynda bankastofnunum, að veita eftirlitsaðilum upplýsingar um sín útlánasöfn. „Þetta er eitthvað sem þarf að bæta, því ef löggjafinn telur sig þurfa að grípa inn í þá þarf hann að hafa þessar upplýsingar,“ sagði hann.

Ásetningur ekki tilviljun

Sömuleiðis þurfi að tryggja að lánveitandinn, í þessu tilfelli danska fyrirtækið, fylgi íslenskum lögum. „Þess vegna er það skoðun starfshópsins að skýrt eigi að taka fram í lögum ef lánveitandi gerir kröfu um kostnað umfram lögboðið hámark og það sé hluti af lánasamningnum þá geti hann ekki innheimt kostnað,“ sagði Hákon.

Komi slík krafa fram í lánasamningi sé ekki um neina tilviljun að ræða,  heldur ásetning. „Þetta er skýr vilji lánveitandans til að hafa meira af lántaka en lög heimila,“ sagði Hákon. Með lagabreytingu væri lánveitanda í slíkum aðstæðum óheimilt að rukka vexti og kostnað af láninu og það ætti að hafa letjandi áhrif á lánveitandann. „Það væri öruggasta leiðin til að fá menn til að fylgja lögunum,“ sagði Hákon.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert