„Hvernig ráðum við bót á þessu böli?“

Þorsteinn Víglundsson í ræðustól Alþingis.
Þorsteinn Víglundsson í ræðustól Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Við höfum heyrt allt of margar sögur þar sem verið er að brjóta mjög gróflega á réttindum starfsfólks, sem býr við algjörlega óviðunandi aðstæður og er í aðstöðu gagnvart vinnuveitanda sínum sem er á engan hátt ásættanleg,“ sagði Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, í sérstakri umræðu á Alþingi um starfsmannaleigur og eftirlit með þeim.

Þorsteinn sagði að það væri mikilvægt að halda umræðunni við það sem hann kallaði skipulagða glæpastarfsemi á þessu sviði, sem nái aðeins yfir örlítinn hluta vinnumarkaðarins. Þau fyrirtæki sem brjóti á starfsfólki sínu séu fáar en mjög alvarlegar undantekningar.

Hrein og klár brotastarfsemi

„Vandinn þegar verið er að glíma við slíkt er að oftar en ekki erum við að glíma við hóp einstaklinga sem eru í hreinni og klárri skipulagðri glæpastarfsemi, þar sem ásetningurinn frá upphafi er að brjóta á kjarasamningsbundnum réttindum, þar sem ásetningurinn er frá upphafi að hagnýta sér veika stöðu þess starfsfólks sem í hlut á. Því að það er jú það sem einkennir stöðu þessa hóps eðli máls samkvæmt,“ sagði Þorsteinn.

Þingmaðurinn minntist á skýrslu á vegum vinnuhóps Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, þar sem til að mynda var talað um útvíkkun keðjuábyrgðar og baráttu gegn kennitöluflakki. Þorsteinn sagðist hafa viljað sjá frekari umfjöllun um mansalsmál, þar sem menn hagnýti sér með grófum hætti vanþekkingu og veika stöðu fólks á vinnumarkaði og þar sem einstaklingar eru með óeðlilegum hætti upp á vinnuveitanda sinn komnir, t.d. varðandi húsnæði eða varðandi atvinnuleyfi.

Þorsteinn spurði ráðherra hvernig hann ætlaði að beita sér. „Er eftirlitinu nægilega vel sinnt? Hefur það það fjármagn sem til þarf? Hvernig ráðum við bót á þessu böli?“

Ásmundur Einar Daðason.
Ásmundur Einar Daðason. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samráð og samvinna lykilatriði

Ásmundur Einar benti á að hann hefði síðasta haust skipað starfshóp sem fór sérstaklega yfir þessi mál. Hópurinn hafi komið með fjölmargar tillögur og minntist Ásmundur sérstaklega á frumvarp sem Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir at­vinnu­vegaráðherra hef­ur lagt fram sem ætlað er að stemma stigu við mis­notk­un á hluta­fé­laga­form­inu og er þar kenni­töluflakk í at­vinnu­rekstri fyrst og fremst und­ir.

Hann sagði að sérstök samráðsnefnd hefði verið skipuð til að samhæfa aðgerðir og fyrsti fundur hennar hefði verið haldinn í síðustu viku en víðtækt samráð væri lykilatriði til að stöðva brotastarfsemi.

Þorsteinn sagði að umrædd skýrsla væri til margra hluta góð. Hann sæi þó fátt sem hann hefði ekki séð síðan hann kom fyrst að málaflokknum fyrir sex árum, alltaf væri talað um að herða lög og reglur en staðreyndin væri sú að verið væri að glíma við skipulagða brotastarfsemi.

Eftirlitið vandinn

„Vandinn er ekki löggjöfin heldur eftirlitið. Fólk að brjóta löggjöfina af hreinum ásetningi. Verður ekki upprætt nema með bókstaflegum ofsóknum í eftirliti,“ sagði Þorsteinn. Lausnin að hans mati felst í því að uppræta fyrirtæki sem fara ekki að núgildandi lögum.

Ásmundur Einar ítrekaði að langstærstur hluti fyrirtækja vildi gera vel. Það þurfti að ná til svörtu sauðanna þar sem um skipulagða brotastarfsemi væri að ræða. „Það hefur tekist að fá alla aðila að borðinu og þeir eru sammála um helstu útlínur hvernig hægt er að auka eftirlit með svörtu sauðunum,“ sagði Ásmundur.

Spurður um aukið fjármagn til verkefnisins sagði Ásmundur að allar stofnanir sem komi að verkefninu hafi gríðarlegt bolmagn og með því að setja það pólitískt á sé hægt að auka slagkraftinn.

Saman er hægt að vinna á þessu, það getur það enginn einn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert