Jeppafólki komið til aðstoðar

Björgunarsveitarfólk að störfum.
Björgunarsveitarfólk að störfum. Ljósmynd/Sigurður Ólafur Sigurðsson

Björgunarsveitarfólk á Suðurlandi var kallað út í nótt vegna jeppafólks sem ekki hafði skilað sér niður af Langjökli í gærkvöldi. Um þrjá jeppa var að ræða.

Aðstandendur höfðu samband upp úr miðnætti þar sem þeir voru farnir að hafa áhyggjur en ekkert hafði heyrst frá hópnum frá því síðdegis, að sögn Jónasar Guðmundssonar, hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. 

Björgunarsveitarfólk á sjö jeppum fór af stað eftir tveimur leiðum upp á jökulinn, annars vegar Þórisjökul og hins vegar Skálpanes. Skálpanes er við brún Langjökuls austur af Jarlhettum en farið er þangað af Bláfellshálsi. Fljótlega tókst að staðsetja fólkið ekki langt frá Þórisjökli sunnan Langjökuls. Undir morgun sá björgunarsveitarfólk til jeppanna og var þá staðsett töluvert sunnan Langjökuls, rétt norðan við Skjaldbreið. Björgunarsveitarfólk er því rétt ókomið til fólksins en ekki er talið að neitt ami að því heldur sé um að ræða bilun eða það hafi fest bíla sína. 

Annað útkall kom á svipuðum tíma en tilkynnt var um vélarvana bát úti fyrir Norðfirði upp úr miðnætti í nótt. Strax var mikill viðbúnaður hjá björgunarsveitum á svæðinu en svo kom í ljós að báturinn var ekki vélarvana heldur var hann að hluta rafmagnslaus og án siglingatækja. Var honum fylgt örugga leið til hafnar af áhöfn björgunarskips Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Neskaupstað og var lagst að bryggju í Neskaupstað rúmlega tvö í nótt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert