Koma ekki til byggða fyrr en í kvöld

Björgunarsveitarmenn að störfum. Mynd úr safni.
Björgunarsveitarmenn að störfum. Mynd úr safni. Ljósmynd/Landsbjörg

Búið er að koma hluta af jeppafólki sem var í bílum sunnan Langjökuls til byggða. Ekkert amar að fólkinu, sem lenti í vandræðum við Langjökul í gærkvöldi og óskaði eftir aðstoð björgunarsveita um miðnætti eftir að bílar þess ýmist biluðu eða festu sig.

Björgunaraðgerðir hafa staðið yfir í tæpan sólarhring og afar hægt gengur að koma fólkinu til byggða. Í tilkynningu frá Landsbjörg kemur fram að snjóbíl og einum jeppa var bætt við björgunaraðgerðirnar í hádeginu þar sem færi á svæðinu er erfitt og lítið skyggni.

Björgunarsveitarmenn hafa náð til alls fólksins en erfitt er að áætla nákvæmlega hvenær allir verða komnir til byggða. Fyrr í dag var áætlað að allir yrðu komnir til byggða um miðjan dag en í tilkynningu frá Landsbjörg segir að björgunarsveitir lögðu af stað til byggða með síðasta hópinn um hálffimm í dag og því má í fyrsta lagi gera ráð fyrir að allir verði komnir til byggða um kvöldmatarleyti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert