Mætti innbrotsþjófnum

mbl.is/Þorkell

Íbúi fjölbýlishúss í Árbænum, sem var að koma heim á níunda tímanum í gærkvöldi, sá að útihurð íbúðarinnar var opin og að maður kemur út úr íbúðinni, sem er á tíundu hæð, með poka í hönd. Innbrotsþjófurinn náði að forða sér á hlaupum með verðmætið í pokanum en hann hafði spennt upp hurð íbúðarinnar og þannig komist inn.

Tveir menn voru handteknir í gærkvöldi fyrir brot á vopnalögum en annar þeirra var handtekinn í hverfi 104 klukkan 18 grunaður um vörslu og sölu fíkniefna, brot á lyfja- og vopnalögum. Maðurinn er vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Hinn var handtekinn um klukkan 22 undir stýri bifreiðar í hverfi 101. Hann var undir áhrifum fíkniefna og framvísaði stórum hníf við afskipti lögreglu. 

Klukkan 18:22 barst lögreglu tilkynning um unga konu í mjög annarlegu ástandi í hverfi 105. Konan var handtekin grunuð um vörslu fíkniefna og brot á  lyfjalögum. Hún er vistuð sökum ástands í fangageymslu lögreglu.

Lögreglan handtók eftirlýstan mann undir stýri bifreiðar í hverfi 109 um níuleytið í gærkvöldi en hann var undir stýri bifreiðar þrátt fyrir að vera sviptur ökuréttindum. Hann er vistaður í fangageymslum lögreglu vegna rannsóknar máls.

Á fimmta tímanum í nótt var tilkynnt til lögreglu um brothljóð í hverfi 101. Þegar lögregla kom á vettvang reyndist ofurölvi maður vera búinn að brjóta rúðu og var skorinn á hendi. Maðurinn var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild til aðhlynningar og verður líklega vistaður í fangageymslu eftir aðhlynningu þar. Maðurinn er erlendur ferðamaður og er ekki vitað hvar hann gistir.

Lögreglan handtók ofurölvi farþega bifreiðar í Hafnarfirðinum í nótt. Ökumaður bifreiðarinnar reyndist ölvaður við akstur og þegar farþeginn var spurður hvar hann héldi til svo hægt væri að aka honum þangað fékk lögreglan engin svör. Hann er því vistaður í fangageymslu lögreglu meðan ástand hans lagast.

Einn var fluttur á slysadeild eftir tveggja bíla árekstur í hverfi 111 í gærkvöldi vegna eymsla í hendi. 

Lögreglan stöðvaði bifreið á Krýsuvíkurvegi síðdegis í gær en bifreiðin reyndist vera ótryggð og voru skráningarnúmer klippt af.

Tveir ökumenn voru stöðvaðir af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt vegna ölvunaraksturs. Annar þeirra var einnig án ökuréttinda þar sem hann hafði áður verið sviptur ökurétti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert