Segir mörgum spurningum enn ósvarað

Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar, segir mörgum spurningum enn ósvarað um …
Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar, segir mörgum spurningum enn ósvarað um hvernig greiðslur örorkulífeyris verði leiðréttar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér líður eins verið sé að segja sitt hvorn hlutinn. Í fyrsta lagi talar ráðherrann um það að það þurfi þessa fjárheimild til þess að greiða rétt fram í tímann og síðan til þess að leiðrétta aftur í tímann, en fjármálaráðherra hefur sagt í ræðustól Alþingis að þetta stoppi ekki á fjárheimildum,“ segir Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar, í samtali við mbl.is.

Er hún að vísa til orða sem Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra lét falla á fundi nefndarinnar í dag um leiðréttingu greiðslu örorkulífeyrisbóta sem umboðsmaður Alþingis segir hafa ekki verið greiddar lögum samkvæmt.

„Svo kemur fram í lok fundar að Tryggingastofnun sé að fara að greiða rétt til framtíðar sem er jákvætt, en við í velferðarnefnd þurfum að tala við Tryggingastofnun og fá það á hreint nákvæmlega hvernig þetta verður reiknað út og hvort það sé rétt skilið að það sé við mánaðamótin,“ segir Halldóra.

Hún segir enn óljóst hvernig leiðrétt verður aftur í tíma og hvernig staðið verður að greiðslum til framtíðar. „Það eru ofboðslega margar spurningar. Það er búið að svara ofboðslega litlu,“ segir formaðurinn.

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, segist í samtali við mbl.is bæði ánægður með svör ráðherrans, en að sumu leyti ekki. „Þessar skýringar að það sé svo flókið að reikna út leiðréttinguna eru alveg út í hött. Ef þeir gátu reiknað þetta í upphafi þá geta þeir reiknað þetta út.“

„Ég er hins vegar ánægður með það að þeir séu að fara að greiða þetta rétt frá næstu mánaðamótum, ef það er rétt,“ bætir hann við.

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins.
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert