Voru án rafmagns í rúman sólarhring

Vinnuflokkur frá Rarik stóð sig vel við erfiðar aðstæður. Ísingin …
Vinnuflokkur frá Rarik stóð sig vel við erfiðar aðstæður. Ísingin sést vel á girðingunni í bakgrunni myndar. Rafmagn komst aftur á á laugardag. mbl.is/Líney Sigurðardóttir

Raflínur slitnuðu og staurar brotnuðu á Melrakkasléttu þegar ofsaveður gekk yfir sl. föstudag en norðanstórhríðinni fylgdi mikil ísing þarna við sjóinn og sligaði línurnar. Rafmagnslaust varð því rétt upp úr hádegi á föstudaginn og voru bæir á Melrakkasléttu án rafmagns í rúman sólarhring.

Vatnsleysi fylgdi í kjölfarið þar sem vatninu er dælt í lagnir húsanna með rafknúnum dælum og rennandi vatn því ekki í boði, hvorki heitt né kalt. Þurftu íbúar því að sækja vatn í bæjarlækinn meðan rafmagnslaust var.

Starfsmenn frá Rarik reyndu að komast til viðgerða á föstudag en urðu frá að hverfa vegna veðurhæðar og mjög blint var í stórhríðinni. „Veðrið var stjörnuvitlaust, staurarnir kubbuðust sundur og skoppuðu eins og eldspýtur, ísingin á línunum var um sjö sentímetrar, sem er mikið miðað við það sem ég hef séð þarna áður,“ sagði Hlynur Helgason, sem kom frá Rarik á Akureyri, en einnig voru starfsmenn Rarik frá Þórshöfn og Kópaskeri í vinnuflokknum, að því er fram kemur í frétt um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert