Yrði að sjálfsögðu högg

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkisstjórnin hefur áhyggjur af stöðu WOW air og hefur haft lengi. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að erfiðleikarnir hafi legið ljósir fyrir í töluverðan tíma. Forsvarsmenn WOW air funduðu í dag með Samgöngustofu.

Katrín segir í samtali við mbl.is að ríkisstjórnin hafi ekki fundað formlega um WOW air í dag en fundað var í ráðherranefnd um samræmingu mála í gær eftir að lá fyrir að Icelandair sleit viðæðum við WOW í gær.

„Síðan þá hefur WOW lýst því yfir að það sé að vinna að einhverri áætlun um fjárhagslega endurskipulagningu,“ segir Katrín og vísar í fundinn með Samgöngustofu. „Málið er á þessum stað núna.“

Gjaldþrot WOW yrði mikið högg fyrir ferðaþjónustuna og fjölmarga starfsmenn flugfélagsins. Þrátt fyrir það sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fyrr í dag að ekkert réttlætti að setja skattfé inn í slíkan áhætturekstur.

„Að sjálfsögðu yrði þetta högg ef allt fer á versta veg. Þetta er stór vinnustaður og þetta myndi hafa áhrif, eins og hefur komið fram, á ferðaþjónustuna,“ segir Katrín sem bendir á að hagkerfið standi vel til að takast á við áföll:

„Skuldsetning er búin að lækka hratt, þjóðhagslegur sparnaður er mikill og allar kennitölur jákvæðar. En auðvitað yrði högg, ekki síst fyrir starfsfólk og ferðaþjónustuna almennt. Hins vegar hefur það verið niðurstaða okkar í ríkisstjórninni að við erum ekki að fara að setja skattfé í slíkan áhættusaman rekstur.

Eru allir í ríkisstjórninni sammála um þetta?

„Þetta hefur verið rætt á vettvangi ríkisstjórnar og á vettvangi ráðherranefndar um samræmingu mála og það er svo.“

Spurð sagði Katrín að Isavia hafi tryggingar vegna skulda WOW air en vildi ekki fara nánar út í þær. „Ég held að það sé best að Isavia fari yfir það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert