Klæðalítill með hávaða og læti

Í stað þess að gista í hótelherbergi er maðurinn gestur …
Í stað þess að gista í hótelherbergi er maðurinn gestur í fangageymslu lögreglunnar. mbl.is/Styrmir Kári

Lögreglan var kölluð út um miðnætti vegna ofurölvaðs gests á hóteli í hverfi 105. Þegar lögregla kom á vettvang var maðurinn, sem er erlendur ferðamaður, klæðalítill á stigagangi með hávaða og læti. 

Maðurinn fór ekki að fyrirmælum lögreglu og sýndi tilburði við að ná búnaði af lögreglumönnum þegar þeir reyndu að ræða við hann. Hann var því handtekinn og er vistaður í fangageymslu þangað til af honum rennur áfengisvíman.

Síðdegis í gær var bifreið ekið á kantstein og síðan á ljósastaur á Helgafellsvegi í Mosfellsbæ. Bílstjórinn var með verki í baki og víðar og var hann fluttur á Landspítalann með sjúkrabifreið. Bifreiðin flutt af vettvangi með Króki og Orkuveitu tilkynnt um staurinn.

För átta ökumanna var stöðvuð af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt vegna þess að þeir voru undir áhrifum fíkniefna við aksturinn. Margir þeirra voru einnig sekir um fleiri lögbrot líkt og hér kemur fram að neðan. 

Ökumaður bifreiðar sem var stöðvaður um kvöldmatarleytið í hverfi 101 er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum, brot á lyfjalögum, vörslu fíkniefna, þjófnað á skráningarnúmerum og var bifreiðin með stolnu númerin. Bifreiðin var ótryggð.

Um svipað leyti var ökumaður, sem er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur bifreiðar án þess að hafa öðlast ökuréttindi, stöðvaður í hverfi 201 í Kópavogi af lögreglunni. Sá þriðji var síðan stöðvaður í hverfi 112 grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna.

Á tíunda tímanum var ökumaður, sem er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og gaf upp rangar persónuupplýsingar við afskipti lögreglu, stöðvaður í hverfi 103. Þessu til viðbótar er hann einnig sviptur ökuréttindum, lögreglan hefur þurft að hafa ítrekað afskipti af honum en hann er einnig grunaður um vörslu fíkniefna.

Stuttu síðar var bifreið stöðvuð í hverfi 109 og reyndist ökumaðurinn undir áhrifum fíkniefna. Í nótt voru síðan þrír ökumenn sem reyndust undir áhrifum fíkniefna stöðvaðir af lögreglu. Einn í hverfi 107 en hann er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og lyfja auk þess að hafa ítrekað ekið bifreið sviptur ökuréttindum. Bifreiðin reyndist vera ótryggð og skráningarnúmer því klippt af.

Ökumaðurinn sem er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og vörslu fíkniefna var stöðvaður í Kópavoginum og er farþegi í bifreiðinni grunaður um vörslu fíkniefna.

Að lokum stöðvaði lögreglan ökumaðurinn sem er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og að aka sviptur ökuréttindum í hverfi 109 í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert