Fjögur í fangageymslum lögreglu

mbl.is/Eggert

Lögreglan handtók þrjár manneskjur í nótt eftir að hafa stöðvað bifreið þeirra. Grunur leikur á að konan sem ók bifreiðinni hafi verið ölvuð en tveir farþegar voru í bílnum. Við leit í bílnum fundust fíkniefni en eigandi bifreiðarinnar hafði neitað lögreglu um að leita í bílnum. Þau eru öll þrjú vistuð í fangageymslum lögreglunnar vegna rannsóknar málsins.  

Innbrotsþjófur var handtekinn á Grensásvegi en hann var handtekinn á vettvangi. Hann gistir fangageymslur lögreglunnar þangað til rennur af honum víman. Sá fimmti var síðan handtekinn vegna fíkniefnamisferlis en hann var látinn laus að lokinni skýrslutöku.

Lögreglunni barst tilkynning um innbrot í bifreið við Nesveg klukkan 23 í gærkvöldi. Að sögn eiganda bifreiðarinnar hafði fjórum dekkjum sem voru í farangursrými bifreiðarinnar verið stolið. Ekki er vitað hver var þar að verki.

Tilkynnt var um skemmdarverk í Lóuhólum en þau eru minni háttar og vitað hver var að verki. Í nótt var síðan tilkynnt um hávaða frá samkvæmi á Skólavörðustíg og lofaði húsráðandi að minnka hávaðann, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert