Lóan er komin

Lóan í Stokkseyrarfjöru í gær.
Lóan í Stokkseyrarfjöru í gær. Ljósmynd/Hjördís Davíðsdóttir

„Þær voru þrjár lóurnar, en ég náði mynd af einni þeirra,“ segir Hjördís Davíðsdóttir í samtali við mbl.is en hún náði mynd af lóu í Stokkseyrarfjöru í gær.

„Við vorum mjög glöð að sjá lóurnar í gær eftir allar leiðinda fréttirnar fyrr um daginn. Nú hlýtur vorið að fara að koma,“ segir Hjördís ennfremur.

Vísar hún þar til frétta af falli flugfélagsins WOW air og uppsagna hjá fyrirtækjum í kjölfar þess. Lóan sást fyrst einnig 28. mars á síðasta ári.

Lóan hefur lengi verið talin einn helsti vorboði hér á landi og er þá oft vísað til ljóðsins „Lóan er komin“ eftir Pál Ólafsson:

Lóan er komin að kveða burt snjóinn,
að kveða burt leiðindin, það getur hún.
Hún hefur sagt mér, að senn komi spóinn,
sólskin í dali og blómstur í tún.
Hún hefir sagt mér til syndanna minna,
ég sofi of mikið og vinni ekki hót.
Hún hefir sagt mér að vakna og vinna
og vonglaður taka nú sumrinu mót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert