Drógu laun af starfsfólki í vaktafríi

Félagsmenn Eflingar í kröfugöngu 8. mars síðastliðinn. Icelandair hótel tóku …
Félagsmenn Eflingar í kröfugöngu 8. mars síðastliðinn. Icelandair hótel tóku ákvörðun um að draga einnig laun af þeim sem voru í vaktafríi er verkfallsaðgerðir fóru fram. mbl.is/​Hari

Icelandair hótel tóku ákvörðun um að draga laun af öllum þeim starfsmönnum sem vinna störf sem féllu undir verkfallsaðgerðir stéttarfélaga í síðasta mánuði, óháð því hvort viðkomandi starfsmenn hefðu verið á vakt þá daga sem verkfallsaðgerðirnar stóðu yfir.

Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar segir í samtali við mbl.is að þetta sé „algjör svívirða“ að mati Eflingarfólks. Vísir.is greindi fyrst frá málinu.

„Við fengum strax fólk til okkar í síðustu viku og við vorum í smástund að átta okkur á því að þetta væri ekki bara einhver einstaklingsbundin tilvik heldur að fyrirtækið hefði tekið þessa stefnu gagnvart öllum starfsmönnum,“ segir Viðar, sem segist ekki vita til þess að fleiri atvinnurekendur hafi haft þennan háttinn á.

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar.
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar. mbl.is/Hari

Fólk í öngum sínum

„Þetta er eina tilvikið sem ég veit um, þar sem að fyrirtæki hefur gert þetta sem einhverja vísvitandi stefnu. Þetta er að okkar mati til háborinnar skammar og fólk hefur komið hérna til okkar, starfsmenn, í öngum sínum,“ segir Viðar, en tveggja daga laun voru dregin af starfsmönnum vegna verkfallsaðgerðanna 8. mars og 22. mars, óháð því hvort þeir voru á vakt þá daga eða ekki.

Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair hótela, segir við RÚV að búið hafi verið að staðfesta að félagsmenn stéttarfélaga sem voru í verkfalli gætu sótt launagreiðslu fyrir sömu daga í verkfallssjóði félaganna. Hún segir jafnframt að fyrirtækið telji þennan frádrátt vera lögum samkvæmt.

„Það er bara ótrúlegt, því að við höfum aldrei gefið það til kynna að við ætluðum að greiða fólki verkfallsstyrk sem að fór ekki í verkfall. Hvers vegna í ósköpunum ættum við að gera það? Mér þykja þetta ótrúverðugar eftiráskýringar fyrirtækisins,“ segir Viðar og ítrekar að það sé til „háborinnar skammar“ að einn stærsti atvinnurekandinn í hótelgeiranum „viðhafi svona vinnubrögð“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert