Norðurslóðir sameina Ísland og Rússland

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Vladimír Pútín, forseti Rússlands, …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Vladimír Pútín, forseti Rússlands, funduðu í Konstantin-höllinni í Pétursborg í morgun. AFP

„Þegar erfiðleikar sóttu að okkur tókst okkur að yfirstíga þá og leysa, en það er eitt sem hefur alltaf sameinað okkur: Norðurslóðir, og þær eru ekki að fara neitt.“ Þetta er meðal annars haft eftir Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, í tilkynningu frá skrifstofu Rússlandsforseta, eftir fund hans með Vladimír Pútín, forseta Rússlands, í morgun. For­set­arn­ir sækja báðir norður­slóðaráðstefnu, In­ternati­onal Arctic For­um, sem hófst á mánu­dag.

Pútín sagði gott samband hafa myndast með yfirvöldum í Rússlandi og norrænu ráðherranefndinni frá því að Ísland tók við formennsku í byrjun árs. Þá vakti Pútín athygli á því að í fyrra voru liðin 75 ár frá því að stjórnmálalegu sambandi var formlega komið á milli ríkjanna.

„Það er von mín að jákvæð samskipti okkar í gegnum tíðina geri okkur kleift að halda áfram á sömu braut, þrátt fyrir þá erfiðleika sem við ræddum yfir hádegisverðarfundi okkar í gær,“ er haft eftir Pútín í tilkynningu frá skrifstofu Rússlandsforseta.

Hvaða erfiðleika Pútín á við er ekki sérstaklega tekið fram, en haft er eftir Guðna að á fundi forsetanna í morgun, sem og á hádegisverðarfundi þeirra á norðurslóðaráðstefnunni í gær, hafi þeim tekist að ítreka mikilvægi þess að skapa víðfeðman samræðuvettvang um norðurslóðir.

Guðni þakkaði sömuleiðis fyrir hlýjar móttökur og uppbyggilega samræður við Pútín.

Vel fór á með forsetunum fyrir og eftir fundinn.
Vel fór á með forsetunum fyrir og eftir fundinn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert