Æfðu viðbrögð við gíslatöku

Frá æfingunni við skrifstofuhúsnæði Sementsverksmiðjunnar.
Frá æfingunni við skrifstofuhúsnæði Sementsverksmiðjunnar. Ljósmynd/Lögreglan á Vesturlandi

Snemma í morgun fór fram lögregluæfing í gömlu skrifstofuhúsnæði Sementsverksmiðjunnar á Akranesi og var verkefnið að fást við vopnaða einstaklinga þar sem hætta var á að um gíslatöku væri að ræða.

Lögreglumenn frá Akranesi og sérsveit ríkislögreglustjóra æfðu þarna saman. Lögreglumenn á Akranesi voru fyrstir á vettvang en fengu síðan aðstoð frá sérsveit ríkislögreglustjóra sem kom á vettvang og tók við verkefninu, að því er segir í tilkynningu á Facebook-síðu lögreglunnar á Vesturlandi.

Nemendur og kennarar í lögreglunámi léku vopnaða mótaðila og gísla. Björgunarsveitarmenn frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg mættu einnig með stjórnstöðvarbíl sem gengur undir nafninu „Björninn“.

Æfingin gekk mjög vel og öll markmiðin með æfingunni náðust. „Vonum að þeim vegfarendum sem tóku eftir æfingunni hafi ekki brugðið, en sérstök æfingavopn eru notuð á svona æfingum,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert