Fjármálaráðherrar í lykilstöðu

Ísland er eitt 22 ríkja sem hafa skrifað undir yfirlýsinguna.
Ísland er eitt 22 ríkja sem hafa skrifað undir yfirlýsinguna. mbl.is/​Hari

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur undirritað yfirlýsingu um alþjóðlegan samstarfsvettvang fjármálaráðherra um aðgerðir í loftslagsmálum, en fyrsti fundur vettvangsins var haldinn um helgina í tengslum við vorfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu og er Ísland eitt 22 ríkja sem hafa skrifað undir yfirlýsinguna.

Þar segir að í aðildinni felist meðal annars viðurkenning á þeirri ógn sem steðjar að efnahagskerfum heimsins, samfélögum og umhverfinu, sem felur í sér áhættu þegar kemur að efnahagslegum vexti og þjóðhagslegum stöðugleika. Telja fjármálaráðherrarnir að í krafti embættis síns séu þeir í lykilstöðu til að hraða umbreytingum til að draga úr losun og auka kolefnisbindingu og skapa umhverfisvænni hagkerfi með stefnumótun og reglusetningu þar sem það á við.

Er vettvangi fjármálaráðherranna ætlað að gefa þeim tækifæri til að deila reynslu og sérþekkingu hver með öðrum og hvetja til sameiginlegs skilnings á stefnumótun og framkvæmd aðgerða í loftslagsmálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert