Er orðinn óþreyjufullur

Kristján Þórður Snæbjarnarson.
Kristján Þórður Snæbjarnarson. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég finn óþolinmæði hjá mínu fólki og er sjálfur orðinn nokkuð óþreyjufullur. Ég hefði viljað sjá meiri hraða í þessum viðræðum,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, eftir fund samflots iðnaðarmanna með Samtökum atvinnulífsins fyrr í dag.

Kristján segir kröfur iðnaðarmanna aðallega snúast um þrennt; aukinn kaupmátt launa, styttingu vinnuvikunnar og breytingar á tilteknum ákvæðum kjarasamninga, en nokkrir veikleikar hafi komið fram í túlkun samninganna. Spurður um nánari útlistun á kröfunum segir hann þær vera  trúnaðarmál, en ljóst sé að laun þurfi að hækka meira en verðlag.

Varðandi styttingu vinnuvikunnar segir Kristján að iðnaðarmenn líti svo á að hægt ætti að vera að stytta vinnutíma með almennari hætti en lífskjarasamningurinn, sem Efling, VR, Starfsgreinasambandið, Framsýn, Verkalýðsfélag Grindavíkur og Verkalýðsfélag Akraness skrifuðu nýverið undir og kjósa nú um, kveður á um. 

Eruð þið nær því að ná samningum eftir fundinn í dag eða hafið þið fjarlægst takmarkið? 

„Þessi samtöl, sem eiga sér stað í kjaraviðræðum, eru nú oft þess eðlis að maður færist ýmist fjær eða nær. Ég hefði viljað komast lengra áfram með samtalið í dag,“ segir Kristján. 

Í samfloti iðnaðarmanna eru, auk Rafiðnaðarsambandsins, Samiðn, Félag bókagerðarmanna, Matvís, Félag hársnyrtisveina og VM - félag vélstjóra og málmtæknimanna. Fulltrúar þessara félaga munu koma saman síðar í dag og ræða stöðu mála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert