Losun gróðurhúsalofttegunda jókst milli ára

Losun gróðurhúsalofttegunda sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda jókst …
Losun gróðurhúsalofttegunda sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda jókst um 2,2% milli áranna 2016 og 2017. mbl.is/Júlíus

Losun gróðurhúsalofttegunda sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda jókst um 2,2% milli áranna 2016 og 2017. Þetta kemur fram í skýrslu Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Skýrslan inniheldur losunarbókhald yfir losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti á Íslandi. Þetta kemur fram í tilkynningu. Hér er hægt að skoða skýrsluna

Þróun losunar Íslands sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda frá árinu 2005, er sú að 5,4% samdráttur hefur verið í losun yfir tímabilið.  Losun gróðurhúsalofttegunda hefur verið nokkuð stöðug síðan 2012, þrátt fyrir aðgerðir til að stemma stigu við losun. Það má að mestu rekja til aukningar ferðamanna á Íslandi og hins vegar aukinnar almennrar neyslu.

Losun 2005-2017 sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda (kt …
Losun 2005-2017 sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda (kt CO2-íg) skjáskot/Umhverfisstofnun

Meginástæður fyrir aukningu í losun milli 2016 og 2017, án landnotkunar, eru aukin losun frá fólksbílum, málmframleiðslu, kælimiðlum og frá nytjajarðvegi. Þrátt fyrir að heildarlosunin hafi aukist milli ára, hefur losun frá ákveðnum uppsprettum dregist saman. Þar má nefna sem dæmi losun frá framleiðsluiðnaðnum (sem inniheldur m.a. fiskimjölsverksmiðjur), einnig dróst losun frá urðunarstöðum saman. 

Helstu uppsprettur sem falla undir beina ábyrgð íslenskra stjórnvalda eru vegasamgöngur (34%), olíunotkun á fiskiskipum (18%), iðragerjun (10%), losun frá kælimiðlum (svo kölluð F-gös – 7%) og losun frá urðunarstöðum. 

Losun 2017 á beinni ábyrgð Íslenskra stjórnvalda, skipt eftir IPCC …
Losun 2017 á beinni ábyrgð Íslenskra stjórnvalda, skipt eftir IPCC flokkum. Tölur sýna hlutfall (í %) af heildarlosun undir sameiginlegum efndum skjáskot/Umhverfisstofnun

Fyrir utan fyrrnefnda losun á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda tekur skýrslan einnig á losun frá stóriðju undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS). Árið 2017 féllu 39% af heildarlosun Íslands undir ETS og var þar 2,8% aukning í losun innan kerfisins milli 2016 og 2017.

Í losunarbókhaldinu er reiknuð öll losun frá Íslandi, bæði sú sem telst sem losun á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda gagnvart skuldbindingum við ESB og einnig sú losun sem fellur undir skuldbindingar samkvæmt viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS). Losunarbókhaldið nær einnig yfir losun frá landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt (LULUCF). 

Orka Orka (jarðeldsneytisbruni og jarðvarmavirkjanir) var uppspretta 40% af losun Íslands árið 2017 (án LULUCF). Losun frá orkugeiranum hefur aukist um 2% árið 2017 miðað við 1990. Mesta aukningin hefur orðið í losun frá vegasamgöngum en einnig frá jarðvarmavirkjunum. Losun frá fiskiskipum, strandsiglingum og innanlandsflugi hefur hins vegar dregist talsvert saman.

Iðnaðarferlar og efnanotkun voru uppsprettur 43% af heildarlosun Íslands árið 2017 (án LULUCF). Öll CO2 losun frá ál- og málmblendiframleiðslu (stóriðja) fellur undir viðskiptakerfi ESB (ETS), og telst þ.a.l. ekki sem losun á beinni ábyrgð stjórnvalda. Sú losun er samt sem áður talin fram í losunarbókhaldinu og því innihalda tölurnar hér á eftir losun frá stóriðjunni. Iðnaðarferlar og efnanotkun var uppspretta 43% losunar Íslands (án LULUCF) árið 2017. Losunin í geiranum hefur aukist um 133% síðan 1990 og er það aðallega vegna aukningar í málmiðnaði og notkun á F-gösum sem kælimiðlar.

Landbúnaður var uppspretta 12% af heildarlosun Íslands árið 2017 (án LULUCF). Losunin hefur dregist saman um 2% milli 1990 og 2017. Stór hluti losunar frá landbúnaði (2/3) kemur frá búfé (iðragerjun og meðhöndlun húsdýraáburðar) og 1/3 frá nytjajarðvegi. Losunin hefur haldist nokkuð stöðug.

Meðhöndlun úrgangs var uppspretta 5% af heildarlosun Íslands árið 2017 (án LULUCF). Langstærsta uppspretta losunar frá úrgangi er metanlosun frá urðun. Losun frá urðun náði hámarki árið 2006, en hún hefur dregist saman síðan þá aðallega vegna aukinnar endurvinnslu og söfnun á metani á tveimur urðunarstöðum á Íslandi.

Til að gera innihald skýrslunnar aðgengilegra almenningi hefur Umhverfisstofnun í fyrsta sinn birt helstu niðurstöður úr skýrslunni á íslensku í stuttri samantekt ásamt því að taka saman lista yfir algengar spurningar og svör varðandi innihald skýrslunnar. Þetta má hvoru tveggja finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

Meginástæður fyrir aukningu í losun milli 2016 og 2017, án …
Meginástæður fyrir aukningu í losun milli 2016 og 2017, án landnotkunar, eru aukin losun frá fólksbílum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert