Nýr 30 metra foss við Dettifoss

Fossinn er 30 metra hár.
Fossinn er 30 metra hár. Ljósmynd/Sigurður Erlingsson

„Þetta gekk bara vel. Við búumst við að hafa einnig lokað á morgun en tökum stöðuna í fyrramálið,” segir Guðmundur Ögmundsson þjóðgarðsvörður Vatna­jök­ulsþjóðgarðs um lokun að Dettifossi. Ófært er að fossinum vegna leysingavatns og því var ákveðið að loka í morgun.  

Lokað var fyrir umferð að fossinum við þjóðveginn sem er um 25 kílómetra frá Dettifossi. „Nei, nei, nei. Fólk skilur vel að það komist ekki að fossinum vegna vatnavaxta en það er allt á floti þarna,“ segir hann spurður hvort fólk hafi virt lokunina. Landvörður stóð vaktina þar í dag.   

Leysingavatn hefur breytt ásýnd svæðisins gríðarlega mikið og til að mynda hefur nýr foss myndast á svæðinu sem er alla jafna alveg þurrt eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Fossinn er um 30 metra hár. Þessar aðstæður skapast á nokkurra ára fresti, að sögn Guðmundar.   

Fossinn hefur ekki enn fengið nafn að því er Guðmundur best veit. Spurður hvort það standi ekki til segist hann ekki útiloka það. Ætli Hverfandi yrði ekki tilvalið enda líklegt að fossinn hverfi innan skamms. Kannski um helgina.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert