„Það er bara allt á floti“

Þessi ljósmynd var tekin á svæðinu í morgun, en síðan …
Þessi ljósmynd var tekin á svæðinu í morgun, en síðan þá hefur enn bæst í vatnsflauminn. Ljósmynd/Vatnajökulsþjóðgarður

„Það er alls ekki öruggt að fara þarna um. Það er bara allt á floti,“ segir Guðmundur Ögmundsson, þjóðgarðsvörður Vatnajökulsþjóðgarðs, um aðstæður við Dettifoss. 

Ákvörðun var tekin um að loka fyrir umferð á svæðinu í morgun vegna mikilla vatnsleysinga. „Það hafa verið mikil hlýindi síðustu daga og það bætir enn í leysingarnar núna. Vatn alls staðar úr nágrenninu er farið að streyma að.“

Guðmundur segir óljóst hversu lengi þarf að halda svæðinu lokuðu en vonast til að hægt verði að opna aftur á morgun.

Sáu snemma í hvað stefndi

„Við verðum bara að fylgjast með hversu hratt sjatnar í þessu og hvernig þetta spilast. Það er búið að vera talsvert af ferðamönnum hérna síðustu daga en nú er landvörður við veginn með lokunarpóst.“

„Ég þori ekki að fara með það hversu mörgum hefur verið vísað frá í dag. Það voru einhverjir komnir þegar við lokuðum í morgun, en þetta var snemma sem við sáum í hvað stefndi og það voru engin vandræði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert