Verkefni björgunarsveita viðráðanleg

Aðstoðarbeiðnir fóru að berast björgunarsveitum á tíunda tímanum á föstudags- …
Aðstoðarbeiðnir fóru að berast björgunarsveitum á tíunda tímanum á föstudags- og laugardagskvöld. mbl.is/Golli

„Þetta gekk mjög vel miðað við spá og vindstyrk. Við höfum oft séð það verra, verkefnin sem okkur bárust voru viðráðanleg,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, um verkefni björgunarsveita um liðna helgi.

Stormur gekk yfir Suður- og Vesturland um helgina og þurfti meðal annars að aflýsa flugferðum til og frá Keflavíkurflugvelli. Versta veðrið gekk yfir á suðvesturhorninu í tveimur skellum á föstudags- og laugardagskvöld. Alls tóku á sjötta tug björgunarsveitarmanna þátt í að sinna rúmlega þrjátíu verkefnum.

„Þetta hófst á tíunda tímanum á föstudagskvöldið. Þá voru aðstoðarbeiðnir aðallega bundnar við Hafnarfjörð og efri byggðir Kópavogs og síðan bættust við örfáar tilkynningar í Reykjanesbæ. Þetta voru aðallega hefðbundin foktjón, þakplötur, stillansar og slíkt. Það markverðasta var garðskúr sem splundraðist í einni hviðunni og okkar verkefni sneri aðallega að því að koma brakinu í öruggt skjól svo það færi ekki út um allt.“

Þegar leið á kvöldið dró úr veðurofsanum og tvær tilkynningar bárust á laugardeginum, en aðstoðarbeiðnum fór aftur að fjölga á tíunda tímanum.

Fjúkandi þakklæðning á flugvallarsvæðinu

„Þá fóru fiskikör að fjúka og önnur hefðbundin fokverkefni. Svo brotnaði ein rúða sem þyrfti að byrgja. Hvellurinn hófst svo á Suðurnesjum þegar tilkynning barst um fjúkandi þakklæðningu á flugvallarsvæðinu og eftir það bárust bættust nokkrar tilkynningar við. Nóttin í framhaldinu var róleg og allt björgunarsveitarfólk komið til síns heima klukkan tvö,“ segir Davíð Már.

Helgin hafi heilt yfir gengið mjög vel miðað við veðurfar. „Það sem ég hafði helst áhyggjur af var að fólk hefði drifið garðhúsgögnin og trampolínin út í vorveðrinu sem hérna var um daginn. Það virðist hafa sloppið nokkuð vel. Við fögnum því að fólk sé á tánum varðandi sitt nærumhverfi og það verður það vonandi áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert