Allir landgangar komnir í notkun

Um 11 vélar biðu um tíma á Keflavíkurflugvelli eftir að …
Um 11 vélar biðu um tíma á Keflavíkurflugvelli eftir að geta hleypt farþegum frá borði. mbl.is/Eggert

Búið er að opna landganga á Keflavíkurflugvelli á ný, en þeir voru teknir úr notkun um tíma síðdegis í dag vegna veðurs. Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir í samtali við mbl.is að allir landgangar nema einn hefðu verið komnir í notkun kl. 16.50 og sá tólfti og síðasti  hefði verið tekinn í notkun um hálftíma síðar.

Veðrið hefur gengið mikið niður á Reykjanesi frá því sem var fyrr í dag.

Ellefu flugvélar sem lentar biðu um tíma með farþega innanborðs eftir að hægt væri að hleypa frá borði og segir Guðjón nú unnið að því á fullu að koma farþegum inn í flugstöðina.

Í kjölfarið verði svo unnið að því að koma þeim um borð í vélarnar sem beðið hafi á Keflavíkurflugvelli.

„Aðstaðan er þannig að það er verið að nota landgangana og svo að sjálfsögðu líka stigabílana,“ segir hann.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert