Orðið bálhvasst á Snæfellsnesi

Veðurútlit klukkan 21 í kvöld, þriðjudag.
Veðurútlit klukkan 21 í kvöld, þriðjudag. Kort/Veðurstofa Íslands

Verulega hefur dregið úr vindstyrk á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi, en í staðinn hefur bæst í vindstyrkinn á  á Vesturlandi og Snæfellsnesi. Greint var frá því fyrir skemmstu að búið sé að opna landganga á Keflavíkurflugvelli á ný, en þeir voru teknir úr notkun síðdegis í dag vegna veðurs og biðu um tíma ellefu flugvélar með farþega innanborðs eftir að hægt væri að hleypa frá borði.

„Það er að draga úr veðrinu á Suður- og Suðvesturlandinu,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á vakt á Veðurstofu Íslands. Hann segir þó áfram verða hvasst á þessum slóðum. „Vindurinn hefur líka dottið mikið niður á Reykjanesbrautinni,“ bætir hann við.

Þar var vindhraðinn nú á sjötta tímanum 17 m/s og hviðurnar  25 m/s og hviðurnar því orðnar skaplegri en fyrr í dag þegar hús­bíll fauk út af veg­in­um á Reykja­nes­braut, milli Valla­hverf­is í Hafnar­f­irði og ál­vers­ins í Straums­vík.

„Það er hins vegar orðið bálhvasst á Snæfellsnesinu. Þar erum við að horfa á hviður sem eru upp í 30 m/s,“ segir Þorsteinn. Á Búlandshöfða sé meðalvindstyrkurinn til að mynda 20 m/s og hviðurnar nálgist 30 m/s. Annars  eru hviðurnar um 20-25 m/s.

Að sögn Þorsteins verður stífur vindur á þeim slóðum fram á nótt og eru þeir sem eru á ferð á norðanverðu Snæfellsnesinu því hvattir til að fara varlega, þar sem það getur orðið vel byljótt í hviðum.

Þá hefur vindhraðinn einnig færst í aukanna á Vesturlandi, í Borgarfirði og við Hafnarfjall en um tíma í dag náðu hviður undir fjallinu hátt í 50 m/s. Búast má við að áfram verði hvasst undir Hafnarfjallinu fram til kl. 21-22 í kvöld.

Á morgun verður áfram hvasst á suðvesturhluta landsins, 8-15 m/s. Heldur hvassara verður hins vegar undir  Eyjafjöllunum, en þar getur farið upp í 18-20 m/s síðdegis á morgun.

Vindur dettur svo niður aftur annað kvöld og má búast við meinleysisveðri á landinu á skírdag og föstudaginn langa, með frekar hlýju veðri en vætusömu  sunnan- og vestanlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert