Stundum unnið allan sólarhringinn

Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis lætur af störfum í lok ágúst.
Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis lætur af störfum í lok ágúst. mbl.is/Golli

„Ég bara tek þessum örlögum, vonandi af einhverri karlmennsku,“ segir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, en hann verður sjötugur í ágúst og lætur þá af störfum í þinghúsinu. „Þetta hefur verið skemmtilegur tími og þetta er skemmtilegur vinnustaður og það hefur verið ótrúlega mikil gæfa að fá að kynnast öllu því fólki sem þar hefur verið í gegnum tíðina,“ segir hann í samtali við mbl.is

Embætti skrifstofustjóra er nú auglýst til umsóknar á vef Alþingis og er gert ráð fyrir að nýr skrifstofustjóri taki til starfa 1. september, en umsóknarfrestur er til 6. maí.

Helgi hefur gegnt embætti skrifstofustjóra frá 2005, en starfsferill hans í þinginu spannar þó rúma fjóra áratugi. „Ég byrjaði upphaflega að vinna fyrir þingið undir árslok 1973 og var þar þá í fimm ár við lestur og störf á bókasafninu. Svo var ég í burtu í fimm ár og kom svo aftur 1983 og var þá yfir allri útgáfunni, þar til ég tók við starfi aðstoðarskrifstofustjóra árið 1993.“

Ákvað snemma að setjast ekki á þing

Hann segir Alþingi vissulega vera óvenjulegan vinnustað sem hann beri sterkar taugar til. „Ég hef haft mikla ánægju af þessu og mikinn áhuga á þessari stofnun og starfseminni,“ segir Helgi sem var á leið til landsins af fundi skrifstofustjóra þjóðþinga er blaðamaður náði í hann.

Spurður hvort aldrei hafi hvarflað að honum sjálfum að setjast á þing segir Helgi svo ekki vera. „Ég tók þá ákvörðun tiltölulega snemma að ég myndi ekki leggja út í stjórnmál sem þátttakandi, en ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á stjórnmálum.“

Á þeim áratugum sem hann hefur starfað fyrir Alþingi hefur þingið tekið miklum breytingum og kveðst Helgi telja um framfarir að ræða í flestum tilfellum. „Mikilvægasta breytingin í þessum efnum var þegar þingið var sett í eina deild 1991. Það var gríðarlega mikilvæg breyting fyrir þingið og styrkti það.“ Miklar tæknibreytingar hafi sömuleiðis orðið á þessum tíma og umhverfi vinnunnar breyst mikið. „Svo hefur verið unnið að því markvisst að breyta starfsaðstöðu þingmanna,“ bætir hann við og nefnir sem dæmi að þingmenn séu nú komnir með skrifstofuaðstöðu og þingflokkarnir með aðstoðarmenn. „Ég held að þetta hafi allt saman farið fram á við.“

Þingmennirnir alveg jafn góðir og þegar hann byrjaði

Stundum  sé sagt að þingmenn séu eitthvað slappari nú en áður, en það segir Helgi vera mesta misskilning að sínu mati. „Þeir eru alveg eins góðir núna og þeir voru þegar ég byrjaði,“ segir hann og kveður þá sem á þingi sitja síður en svo eiga vantraust, sem stundum birtist í skoðanakönnunum. „Hitt er annað mál, að það verður að greina á milli trausts á Alþingi sem stofnun og svo trausti á stjórnmálum og stjórnmálamönnum, því það er svolítið annað. Það byggir á því hvort menn eru ánægðir með það sem þeir eru að gera eða ekki.“

Helgi segist líka alla tíð hafa upplifað það þannig að þeir sem setjist nýir inn á þing beri mikið traust til stofnunarinnar og finnist mikið til um taka þátt í þeirri starfsemi sem þar fer fram. „Það hefur líka verið mjög þroskandi fyrir flesta og eiginlega verið ævintýri að fylgjast með sumu fólki sem hefur komið þarna inn með litla reynslu af opinberum störfum.“ Þeir hafi sumir hlotið mikla reynslu og þroska á skömmum tíma. „Það eru flestir þarna sem læra mjög mikið um þjóðlífið og það að vera stjórnmálamaður.“

Starf sem verður að sinna af alhug

Þó að Helgi láti af störfum í ágúst hefur hann ekki hug á að setjast í helgan stein. „Mitt áhugamál hefur verið fræðigrúsk og skriftir og ég býst við að ég sinni því eftir því sem ég get,“ segir hann og útilokar ekki að skrif sín eigi eftir tengjast þinginu. „Ég hef allavega áhuga á að skrifa svolítið um þingið því ég hef heilmiklar meiningar um það hvernig megi bæta enn frekar skipulagið. Svo á ég þrjú barnabörn sem mér þykir vænt um og langar til að geta sinnt meira.“

Vinnan á þinginu getur verið mikil tarnavinna og þegar þingfundir teygjast fram eftir kvöldi og jafnvel nóttu geta vinnudagarnir verið langir. „Ég hef  unnið þarna allan sólarhringinn stundum,“ segir Helgi. Einhvern tímann vorum við  þarna t.d. á annan í jólum. Þannig að þetta hefur verið geysilega mikil vinna og allir vinnudagar langir.“

Embætti skrifstofustjórans er mikið ábyrgðastarf og er hann er spurður hvaða ráð hann hafi fyrir þá sem hafa hug á að sækja um segir Helgi: „Það getur enginn sinnt þessu nema af alhug. Það getur engin gert þetta, nema hella sér út í það af fullkominni ástríðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert