Bjarni Ármanns í grunnbúðum Everest

Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood International.
Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood International. Ljósmynd/Iceland Seafood International

„Ég er í grunnbúðum Everest í tæplega 5.400 metra hæð,“ segir Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood International, í samtali við mbl.is en hann er nú staddur í Nepal og stefnir að því að komast á topp Everest-fjalls, hæsta fjalls jarðarinnar.

Bjarni segir aðspurður allt hafa gengið vel hingað til. „En þetta er langur leiðangur og allt þarf að leggjast með manni. Aðalatriðið er ekki að komast upp, aðalatriðið er að komast niður.“ Hann segir netsamband stopult. Það sé gervihnattadrifið og háð skýjafari.

Bjarni er mikill áhugamaður um fjallgöngur og hefur meðal annars klifið hæsta fjallstind Suðurskautlandsins. Everest er 8.848 metrar yfir sjávarmáli.

Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu í gær að íslenska ríkið hefði brotið á mannréttindum Bjarna með því að dæma hann fyrir skattalagabrot þrátt fyrir að ríkisskattstjóri hefði þegar úrskurðað í máli hans og hann gert upp skattaskuld sína. Komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að Bjarni hefði verið refsað tvisvar fyrir sama brot.

Spurður um viðbrögð við dóminum segir Bjarni að hann hafi ekki náð að lesa dómsniðurstöðuna. Hann ætli ekki að tjá sig um málið á þessari stundu enda hafi hann nóg um að hugsa í augnablikinu vegna Everest-ferðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert