Útlit er fyrir harða lendingu

Óvissa er um fjölda flugfarþega og erlendra ferðamanna í ár. …
Óvissa er um fjölda flugfarþega og erlendra ferðamanna í ár. Hátt hlutfall flugfarþega á síðustu árum hefur ekki komið inn í landið.

Um 13% færri farþegar fóru um Keflavíkurflugvöll í mars en í sama mánuði í fyrra. Samdrátturinn er tæp 9% fyrstu þrjá mánuði ársins.

Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri segir aðspurður að gjaldþrot WOW air 28. mars hafi haft lítil áhrif á talningu ferðamanna síðustu daga marsmánaðar. Önnur flugfélög hafi enda fyllt í skarðið og flutt farþega WOW air fyrstu dagana eftir gjaldþrotið.

Farþegum á Keflavíkurflugvelli fækkaði minna milli ára í janúar og febrúar en í mars, eða um 6% og 6,5% þessa tvo mánuði, að því er fram kemur í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag.

Skarphéðinn segir aðspurður að lendingin þessa tvo mánuði hafi verið mýkri en Ferðamálastofa áætlaði í kjölfar þess að WOW air fækkaði þotum úr 20 í 11 í desember og sagði upp á fjórða hundrað starfsmanna. Á sama hátt hafi Isavia gert ráð fyrir meiri samdrætti en raunin varð.

Við fækkun sæta vegna endurskipulagningar WOW air hafi bæst kyrrsetning á Boeing Max-þotum Icelandair. Áhrifa þeirrar kyrrsetningar hafi farið að gæta í mars og eigi þátt í meiri fækkun farþega en í janúar og febrúar. Áhrifanna af falli WOW air fari svo að gæta fyrir alvöru í apríl. Flugumferðin í Keflavík geti minnkað um tveggja stafa tölu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert