Lundinn kominn til Eyja

Vorboðinn er kominn til Vestmannaeyja.
Vorboðinn er kominn til Vestmannaeyja. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vorboðinn er kominn til Vestmannaeyja. Lundinn er byrjaður að setjast upp. Sigurður Bragason sá töluvert af lunda í Stórhöfða í fyrrakvöld og á vefnum eyjar.net er sagt frá því að fuglaáhugamaður hafi séð lunda við Kaplagjótu við Dalfjall á sunnudagskvöld.

„Það er greinilega komið sumar,“ segir Sigurður. Raunar hefur verið strekkingur í Vestmannaeyjum síðustu daga og ekki góðar aðstæður fyrir lundann til að setjast upp.

Á undan fyrir norðan

Lundinn er nokkuð á venjulegum tíma í Vestmannaeyjum í ár. Erpur Snær Hansen, líffræðingur hjá Náttúrustofu Suðurlands, segir að það sé aðeins breytilegt eftir árum en meðaltalið frá árinu 1953 sé um 18. apríl. Á síðasta ári urðu Eyjamenn fyrst varir við lundann 19. apríl og 16. apríl fyrir tveimur árum.

Lundinn sest fyrr upp á Norður- og Austurlandi. Erpur segir að Austurland og Steingrímsfjörður á Ströndum séu fyrst í röðinni, síðan Norðurland, þá Vesturland en lundin setjist síðast upp á Suðurlandi. Sama eigi við um varpið, það hefjist fyrr fyrir austan og norðan. helgi@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert