Einangrun byggi ekki á pólitískum viðhorfum

„Hér er gerð krafa um bólusetningar, rannsóknir og meðferðir og …
„Hér er gerð krafa um bólusetningar, rannsóknir og meðferðir og skoðun áður en dýrið kemur til landsins,“ segir Herdís. „Ég get ekki séð annað en að þau úrræði séu fyllilega nægjanleg og besta vörnin í raun gegn þeim alvarlegu sjúkdómum sem bent er á í skýrslunni,“ segir Herdís Hallmarsdóttir, formaður Hundaræktarfélags Íslands. Ljósmynd/HRFÍ

Einangrunarvist gæludýra á Íslandi byggir að stærstu leyti á „samfélagslegum og pólitískum“ ákvörðunum, segir í skýrslu sem dr. Preben Willeberg, fyrrum yfirdýralæknir Danmerkur, afhenti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu fyrir skemmstu.

Wil­le­berg var haustið 2017 fenginn af þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, til að vinna áhættumat vegna inn­flutn­ings hunda og katta til landsins.

Í skýrslunni sem Willeberg skilaði ráðuneytinu fyrir skömmu eru 54 sjúkdómar og sýkingar metnar með tilliti til þeirrar hættu að þeir berist til Íslands með innflutningi hunda og katta, en ekki er tekin af­staða til þess hvort hægt sé að stytta sótt­kví fyr­ir hunda og ketti, sem í dag er fjórar vikur. Fjallað er hins vegar sér­stak­lega um inn­flutn­ing hjálp­ar­hunda, þ.e. sérþjálfaða leiðsögu- eða hjálp­ar­hunda sem aðstoða blinda eða fatlaða ein­stak­linga, og kemst Wil­le­berg að þeirri niður­stöðu að minni áhætta fylgi inn­flutn­ingi hjálp­ar­hunda en annarra hunda.

Segir Willeberg í skýrslu sinni að þar sem ákvörðun um einangrun byggi að stærstum hlut á „samfélagslegum og pólitískum“ ákvörðunum, þá séu í núverandi skýrslu ekki lagðar til ákveðnar mót­vægisaðgerða til að lág­marka áhætt­una á smiti sem fylgt geti innflutningi hunda og katta til Íslands.

Hundur á götu í Bretlandi. Samkvæmt skýrslu Willeberg er áhættan …
Hundur á götu í Bretlandi. Samkvæmt skýrslu Willeberg er áhættan samfara flutningum á dýrum frá Bretlandi og Norður-Evrópu tiltölulega lítil. AFP

Sérstakt að fjalla ekki um núverandi reglur

Herdís Hallmarsdóttir, formaður Hundaræktarfélag Íslands, segir óneitanlega dálítið sérstakt að Willeberg komist ekki að neinni áþreifanlegri niðurstöðu í skýrslu sinni. Ekki hvað síst í ljósi þess að hann var beðinn um að framkvæma mat á núverandi löggjöf og reglugerð varðandi innflutning hunda og katta. „Hann fjallar ekki um núverandi reglur á neinn hátt,“ segir Herdís og kveður það vissulega vonbrigði að hann taki ekki á tímalengd einangrunar þó umfjöllunin sé að öðru leyti fagleg.

Í frétt sem birt er á vef HRFÍ segir að áhættumat Willebergs  staðfesti „réttmæta gagnrýni HRFÍ á núgildandi reglur um innflutning hunda“. Af lestri áhættumatsins megi m.a. draga þá ályktun „að lítil áhætta felist í að viðurkenna gæludýravegabréf a.m.k. frá Bretlandi og Norður Evrópu, þaðan sem meirihluti innfluttra hunda koma.“

Willeberg bendi m.a. á, að áhættan sé mismunandi eftir innflutningslöndum og komist að þeirri niðurstöðu að hún sé til að mynda mjög lítil komi hundur frá Norður Evrópu eða Bretlandi. „Langflestir hundar sem koma til Íslands eru að koma frá þessum löndum,“ segir Herdís en tafla sem birtir er í skýrslunni sýnir áhættu á sjúkdómsvöldum frá mismunandi svæðum Evrópu og er áhættan að dýr frá Norður-Evrópu og Bretlandi beri með sér sýkla eða hundaæði metinn mjög lítil og lítil, en lítil og í meðallagi varðandi sníkla.

Áhættan er talin í meðallagi fyrir dýr frá miðhluta Evrópu, en aðeins meiri varðandi dýrum frá Suður- og Austur-Evrópu. Ekki er tekið fram hver áhættan kunni að vera frá löndum utan Evrópu.

„Við erum með einstakt tækifæri til að vera með strangt landamæraeftirlit við komuna til landsins sem önnur Evrópuríki eru verr í sveit sett með,“ segir Herdís. „Hér eru ákveðnir inngöngupunktar og ekki hægt að keyra yfir landamærin.“

Hundar að leik. Fjögurra vikna einangrunavist fer ekki vel í …
Hundar að leik. Fjögurra vikna einangrunavist fer ekki vel í alla hunda og hefur HRFÍ lengi barist fyrir því að hún sé stytt. AFP

Skynsamlegt að horfa til Nýja Sjálands og Ástralíu

Segir HRFÍ að þó Willeberg taki ekki sérstaklega á lengd einangrunartíma í skýrslu sinni þá komi þar fram að engin vísindaleg rök virðist búa að baki núverandi kröfu um fjögurra vikna einangrunarvistun hunda.  Eins bendi hann á að íslensk stjórnvöld geti gripið til mismunandi úrræða, m.a. eftir því hvaðan hundur sé að koma til landsins.

„Willeberg tekur fram að það sé skynsamlegt, eins og hann orðar það, að líta til einangraðra landa á borð við Nýja Sjáland og Ástralíu og það liggur fyrir hvaða sóttvarnir eru í gildi þar,“ segir Herdís. Þar sé gerður greinarmunur á hvaðan dýr séu að koma varðandi lengd einangrunar og til að mynda sé ekki gerð krafa um einangrun þeirra dýra sem eru að koma frá Ástralíu til Nýja Sjálands og öfugt.

Þá hafi ríkin bólusetningar og meðferðir þar valkvæðar er dýrin komi frá ákveðnum ríkjum. 

Bólusetning oft besta vörnin

„Hér er gerð krafa um bólusetningar, rannsóknir, meðferðir og skoðun áður en dýrið kemur til landsins,“ segir Herdís. „Ég get ekki séð annað en að þau úrræði séu fyllilega nægjanleg og besta vörnin í raun gegn þeim alvarlegu  sjúkdómum sem bent er á í skýrslunni.“ Nefnir hún máli sínu til stuðnings að Willeberg nefni við upptalningu 54 sjúkdóma og sýkinga að bólusetning sé oft besta vörnin. „Þannig  einangrunarvistun í fjórar vikur bætir engu við það, sér í lagi ekki frá þessum löndum sem talað er um. Það þarf  að vera eitthvað vægi á milli áhættunnar sem slíkrar og aðgerðanna. Ef áhættan er mjög lítil þá hljóta aðgerðirnar að taka mið af því.“

HRFÍ hefur lengi verið ötull talsmaður þess að einangrunarvist gæludýra verði gerð styttri og segir Herdís að samkvæmt þeim niðurstöðum sem komi fram í skýrslu Willeberg finnst sér að skoða eigi að skipta svæðum eftir áhættu. „Það ætti líka að skoða það að taka upp gæludýravegabréf fyrir dýr frá Norður-Evrópu og hafa þá sóttvarnirnar í öðru en einangrun.  Einangrunarvistun er ekki eina úrræðið sem stjórnvöld hafa, því bólusetningar, krafa um ormahreinsun, læknisskoðun og rannsókn áður en dýr ferðast, þetta eru allt sóttvarnir.“

Vísindaleg rök þurfi að vera til staðar sem sýna fram á að lengri vistun sé nauðsynleg eða skili árangri, en þau virðist ekki vera fyrir hendi. „Að sjálfsögðu er það úrræði til staðar í Nýja-Sjálandi og Ástralíu að lengja einangrunarvist á dýri ef ekki er allt í lagi. Þeir viðurkenna það þó þar að þeir eru bara að fylgjast með að dýrið sé ekki sýnilega sýkt.“

HRFÍ hvetji íslensk stjórnvöld til að endurskoða regluverkið, sem byggist á gamaldags sjónarmiðum og hafa að leiðarljósi vísindaleg rök. Með því væri tryggt að málefnaleg sjónarmið væru lögð til grundvallar íþyngjandi ákvörðunum. „Auðvitað er ekki hægt að byggja einangrunarvist hunda á pólitískum viðhorfum, heldur verða stjórnvöld að byggja á málefnalegum sjónarmiðum, meðalhófi og vísindalegum rökum. Við megum ekki ganga ekki lengra en nauðsyn krefur og í því samhengi þarf líka að hafa í huga velferð dýranna sem lokuð eru frá fjölskyldum sínum svo vikum skiptir,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert