Vísir að páskahreti

Hitaspá fyrir landið í hádeginu á morgun, skírdag.
Hitaspá fyrir landið í hádeginu á morgun, skírdag. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Veðurstofan varar við því að nú þegar hlýtt er á landinu og víða leysingar séu auknar líkur á vatnavöxtum næstum daga, einum suðaustanlands.

Veðurfræðingur hjá Veðurstofunni segir að vætusöm og mild suðlæg átt haldi áfram inn í páskahelgina. Suðvestlægari vindur og fer að kólna á laugardag og líkurnar á að vindáttin snúist til norðlægra átta seint á páskadag og annan í páskum fer vaxandi. 

Veðurvefur mbl.is

„Sú kólnun sem fylgir því að snúist til norðlægra átt myndi gefa ofankomu sem slyddu og jafnvel snjó á köflum, enda myndi hiti rétt fara yfir frostmark að deginum fyrir norðan. Að sama skapi er miklar líkur á næturfrosti um allt land en hitatölur syðra að deginum yrðu nokkru hærri eða 2 til 7 stig. Enn er talsverð óvissa um hve mikil kólnunin verður og eins hve lengi þetta standi yfir og mætti líta á þetta sem vísi að páskahreti,“ skrifar veðurfræðingur í hugleiðingar sínar á vef Veðurstofunnar í morgun.

Veðurhorfur næsta sólarhringinn:

Minnkandi sunnanátt og rigning á köflum, en suðaustan 8-15 m/s um hádegi og rigning sunnan- og vestantil, en mun hvassara undir Eyjafjöllum. Bætir í úrkomu suðaustantil um kvöldið, en úrkomulaust að kalla um landið norðaustanvert.
Sunnan og suðvestan 8-15 m/s á morgun. Víða dálítil væta sunnan- og vestantil, en annars þurrt. Hiti 7 til 13 stig að deginum, hlýjast fyrir norðan.

Veðurhorfur næstu daga:

Á fimmtudag (skírdagur):
Sunnan 8-15 m/s og rigning eða súld víða um land, talsverð rigning suðaustanlands í fyrstu, en lengst af úrkomulaust norðaustanlands. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast norðaustantil. 

Á föstudag (föstudagurinn langi):
Sunnan 8-15 m/s og rigning eða súld, en þurrt að kalla norðantil. Hiti breytist lítið. 

Á laugardag:
Suðvestan 10-15 m/s með skúrum og kólnandi veðri, en sums staðar slydduéljum þegar líður á daginn. Bjartviðri á Norður- og Austurlandi. 

Á sunnudag (páskadagur):
Suðlæg átt með rigningu eða slyddu á sunnanverðu landinu, en úrkomulítið norðan- og austanlands. Hiti 2 til 7 stig en svalara um kvöldið. 

Á mánudag (annar í páskum):
Norðaustanátt og rigning austantil, él um landið norðvestanvert en annars yfirleitt þurrt. Hiti 1 til 8 stig yfir daginn, hlýjast syðst. 

Á þriðjudag:
Útlit fyrir norðanátt með ofankomu á Vestfjörðum, en suðaustlæg átt og væta austantil. Annars breytileg átt og úrkomulítið. Hiti svipaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert