Íris í auglýsingu Bernie Sanders

Íris Gunnarsdóttir segir það súrrealískt að bregða fyrir í auglýsingu …
Íris Gunnarsdóttir segir það súrrealískt að bregða fyrir í auglýsingu frambjóðenda til forseta Bandaríkjanna. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er bara svolítið súrrealískt,“ svarar Íris Gunnarsdóttir og hlær þegar blaðamaður spyr hvernig er að bregða fyrir í auglýsingu Bernie Sanders, frambjóðanda í forvali bandaríska Demókrataflokksins. Ferðalag um Gvatemala leiddi til þess að starfsmenn Sanders höfðu samband og vildu fá hana til þess að tjá sig um íslenska heilbrigðiskerfið.

Auglýsing Sanders sem byggir á frásögnum kvenna sem búa við opinbert heilbrigðiskerfi hefur verið birt á Twitter.

Fjallganga í Gvatemala

„Þetta kom mjög á óvart,“ segir Íris um að haft var samband við hana vegna gerðar auglýsingarinnar. Forsöguna er nefnilega að rekja til ferðalags til sem hún lagði í fyrir að verða þremur árum síðan. Í fjallgöngu í Gvatemala kynntist hún Clio Chang, lausapenna frá New York.

Í byrjun þessa árs hafði Chang samband við hana vegna greinar sem hún var að skrifa fyrir bandaríska Elle tímaritið um upplifun kvenna af opinberu heilbrigðiskerfi. Bað hún Írisi um að segja frá sinni upplifun. Viku eftir að greinin var birt í síðasta mánuði, hafði Chang svo samband á ný og sagði að skrifstofa Sanders hefði haft samband við sig og óskað eftir að taka viðtal við Írisi á ný vegna greinarinnar.

Skjáskot

Íris segist hafa tekið vel í að taka þátt, en að hún hafi verið svolítið hissa. „Það er nú skrítið að fólk sem er að vinna fyrir Bernie Sanders sé að biðja mann um viðtal, en ég ákvað bara að gera þetta. Svo var tekið Skype-viðtal og þetta er komið út núna.“

Forðast pólitík

Íris kveðst sjálf ekki vera mjög pólitísk. „Ég reyni nú að forðast það. Þetta viðtal við vinkonu mína í Bandaríkjunum var nú bara greiði við hana.“ Spurð hvort hún ætli að leggja fyrir sig stjórnmálabaráttu vestanhafs svarar Íris að svo sé alls ekki og skellir upp úr. „Langt frá því.“

„Þau spurðu hvað finnst þér um Trump og eitthvað og ég hugsaði bara Guð, ég ætla ekki að fara koma mér í einhverja andstöðu við Trump á vefmiðlum,“ útskýrir Íris og bætir við að hún hafi aðeins svarað samkvæmt eigin sannfæringu.

Hún segist ekki hafa fengið mikil viðbrögð ennþá, enda aðeins nokkrir tímar síðan hún vissi af því að búið væri að birta auglýsinguna. „Þetta er mjög fyndið, því ég var akkúrat að segja mömmu frá því að fólk frá Bernie Sanders hefði haft samband við mig og að ég vissi ekkert hvenær það kæmi út.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert