Óánægja með viðtöl Bandaríkjamanna

Farþegar í Leifsstöð geta átt von á því að eftirlitsmenn …
Farþegar í Leifsstöð geta átt von á því að eftirlitsmenn nálgist þá með spurningar áður en komið er inn í flugstöðina sjálfa. mbl.is/Eggert

Flugfarþegi lýsti í dag óánægju sinni með framgöngu manna í brottfararsal Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar í Facebook-hópnum Bakland ferðaþjónustunnar. Mennirnir tveir spurðu fólk spurninga um það hvert það hygðist ferðast. 

Þeir sem ætla til Bandaríkjanna eru kallaðir til hliðar til frekari viðræðu, hinum er hleypt áfram. Löng röð farþega í innritun kemst ekki framhjá því að svara umræddum mönnum og eykur enn frekar á afgreiðslutafir vegna þessarar hnýsni,“ segir í færslunni. Fleiri lýsa óánægju í athugasemdum við færsluna, en aðrir sýna fyrirkomulaginu skilning.

Farþeginn lýsir uppákomunni í færslu í hópnum Bakland ferðaþjónustunnar.
Farþeginn lýsir uppákomunni í færslu í hópnum Bakland ferðaþjónustunnar. Skjáskot/Bakland ferðaþjónustunnar

Viðtöl vegna nýrra reglna Bandaríkjamanna

Um er að ræða viðtöl sem eru hluti hertra reglna Bandaríkjamanna sem tóku gildi í nóvember á síðasta ári. 

Í hinum hertu reglum eru gerðar auknar kröfur til flugfélaga sem bjóða flugferðir til Bandaríkjanna, t.d. Icelandair. Samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu eru viðtölin við tengifarþega fyrst og fremst framkvæmd í Evrópu og Bretlandi, en þegar það er ekki unnt verða þau tekin í Keflavík. Eru þau þá framkvæmd fyrir aftan landamæri eða við hlið. Viðtöl við þá sem hefja ferð í Keflavík eru tekin þar.

„Þetta eru kröfur sem TSA [Flugöryggisstofnun Bandaríkjanna] setur á öll flugfélög sem fljúga til Bandaríkjanna og er verið að innleiða víða. Þetta fyrirkomulag hefur verið til staðar fyrir önnur svæði í heiminum í nokkurn tíma og hefur nú verið innleitt fyrir öll félög,“ segir í svari Icelandair við fyrirspurn mbl.is. Nýtur Icelandair þjónustu fyrirtækja til að sjá til þess að öryggiskröfur séu uppfylltar, en þeir sem annast viðtölin þurfa að hljóta sérstaka þjálfun.

Á vef Icelandair er mælst til þess að farþegar komi fyrr í flugstöðina í ella enda geti viðtölunum fylgt smávægilegar tafir. Samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu eru spurningar í viðtölunum „ekki ósvipaðar þeim sem fólk fær þegar það innritar sig inn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert