Brýrnar helsti veikleikinn

Öryggi á brúnni yfir Núpsvötn er ábótavant, segir Ólafur.
Öryggi á brúnni yfir Núpsvötn er ábótavant, segir Ólafur. mbl.is/Sigurður Gunnarsson

Brýrnar eru helsti veikleiki vegakerfisins á Suðurlandi, það blasir við. Þetta segir Ólafur Guðmundsson umferðaröryggissérfræðingur í samtali við mbl.is. Eins og RÚV greindi frá í gær mun Ólafur sjá um úttekt á umferðaröryggi á Suðurlandi, í umboði sveitarfélaganna Hornafjarðar, Skaftárhrepps og Mýrdalshrepps. 

Kveikjan að vinnu við úttektina er slysið sem átti sér stað á brúnni yfir Núpsvötn í desember, þegar bifreið fór yfir vegrið á brúnni og þrír farþegar biðu bana. Eins og víða kom fram á þeim tíma var öryggi á brúnni ábótavant. Hins vegar hefur ekkert verið aðhafst síðan til að auka öryggi brúarinnar segir Ólafur.

„Nýr kúnnahópur“

Átján manns létust í umferðinni í fyrra, þar af átta á Suðurlandi, og var það „fjórða versta ár frá upphafi“. Enginn hefur hins vegar látist í umferðinni það sem af er þessu ári. Ólafur segir það vitanlega vera gleðifréttir, en það segi þó ekki endilega alla söguna. „Erlendis horfa menn alltaf á látna og alvarlega slasaða saman. Ég er að reyna að venja menn á það,“ segir Ólafur og segist sjálfur ekki vita hversu margir hafa slasast alvarlega í umferðinni á þessu ári. „Kannski er sú tala hærri en á sama tíma í fyrra bara af því að fleiri hafa lifað af.“ 

Að auki við brýrnar er ýmislegt sem varðar umferðaröryggi sem þarf að huga að á Suðurlandi, að mati Ólafs. Yfirborðsmerkingar þurfi að bæta og bregðast þurfi við mikilli umferðaraukningu. „Það sem á kannski sérstaklega við um Suðurlandið er að Íslendingar eru orðnir í minnihluta,“ segir Ólafur og bætir við: „Það þýðir að við þurfum að horfa á vegina með nýjum augum. Þar er kominn nýr kúnnahópur sem hugsar öðruvísi en við. Við kunnum t.a.m. að fara yfir einbreiðar brýr.“

Úttektirnar hafa borið árangur

Ólafur hefur unnið við sambærilegar umferðaröryggisúttektir víðar á síðustu árum, og hafa þær að hans sögn borið góðan árangur. Hann hafi fyrir þremur árum gert úttekt fyrir sex sveitarfélög í Árnessýslu, sem þau hafi svo farið með fyrir samgönguyfirvöld og krafist úrbóta. Það hafi haft áhrif og því hafi fleiri sveitarfélög viljað ráðast í sambærilegar aðgerðir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert