Bjóða heimilislausum í páskamat

Hjálpræðisherinn hefur lánað Öruggu skjóli húsnæði sitt í Mjódd fyrir …
Hjálpræðisherinn hefur lánað Öruggu skjóli húsnæði sitt í Mjódd fyrir páskamatinn. mbl.is/Jakob Fannar Sigurðsson

„Sonur minn, sem bjó á götunni, lést 15. október síðastliðinn. Ég hafði hitt hann tíu dögum áður og þá töluðum við að ég ætlaði að fara að snúa mér að því að vinna fyrir fólkið á götunni og nú er ég að því,“ segir Guðrún Hauksdóttir Schmidt, sem hefur stofnað minningarsjóð Þorbjörns Hauks Liljarssonar, Öruggt skjól, og ætlar að halda páskamat fyrir heimilislausa í hádeginu á annan í páskum.

Hjálpræðisherinn hefur lánað Öruggu skjóli húsnæði sitt í Mjódd fyrir páskamatinn, Fjárhúsið í Granda mathöll gefur mat og Vífilfell gos með matnum og þá hefur sjóðurinn leigt rútur hjá Grey Line á góðu verði.

„Við sækjum þau með rútu niður í miðbæ og förum með þau upp eftir og svo verða líka trúbadorar á staðnum. Boðskapurinn er að gera eitthvað gott fyrir fólkið okkar á götunni,“ segir Guðrún.

Páskamaturinn er fyrsta verkefni minningarsjóðsins, en Guðrún segir langtímaverkefnið vera að vinna að varanlegum úrræðum á vanda heimilislausra. „Við ætlum að halda minningartónleika næsta vetur og við vonumst til að borgin útvegi okkur húsnæði. Sjóðurinn myndi svo jafnvel sjá um að rekstur starfseminnar.“

Úrræði fyrir þá sem koma úr meðferð og fangelsi skorti

Guðrún segir heilmikið vera að gerast í málefnum heimilislausra, en að úrræði fyrir þá sem eru að koma úr meðferð og fangelsi skorti. Markmið Öruggs skjóls sé að koma á fót úrræði þar sem fólk getur verið í allt að ár og fái aðstoð við að koma sér aftur á vinnumarkaðinn.

„Fyrst og fremst leitum við eftir samstarfi við ríki og borg til að koma á varanlegu úrræði fyrir heimilislausa einstaklinga. Við óskum þess að fólk sem er á götunni sjá fram á öruggt skjól, bjart framtíð og eigi von. Til þess þarf átak og félagsskap fólks sem þorir og vill. Að sjálfsögðu snýst þetta um peninga – án þeirra er ekkert hægt að gera. Það er til nóg af þeim, við verðum bara að skipta þeim jafnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert