Ræða við foreldra ungmennanna

Grafarvogur.
Grafarvogur. mbl.is/Brynjar Gauti

Ráðist var á ungan pilt af erlendum uppruna við verslunarkjarnann í Langarima í Grafarvogi síðdegis í gær. Að sögn aðstoðaryfirlögregluþjóns kannast lögreglan við málið og verður rætt við hlutaðeigandi foreldra og barnaverndaryfirvöld í dag og á morgun vegna þessa.

Sigurður Hólm Gunnarsson greindi frá því á Facebook í gær að hann hafi orðið fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að þurfa að stöðva ofbeldi við verslunarkjarnann í Langarima.

„Ég var að keyra framhjá þegar ég sá hóp af ungum mönnum ráðast að einum með ofbeldi og aðra taka það upp á símann sinn. Ég ákvað að beygja inn á bílaplan og inn í hópinn og spyrja hvað væri í gangi.

Þar voru mjög reiðir ungir menn sem rifu kjaft og sögðu að mér kæmi málið ekki við. Þeir voru ógnandi. Ég bað þá að yfirgefa svæðið en þeir neituðu. Það var ekki fyrr en ég tók upp símann og hringdi í lögregluna sem þeir hörfuðu í felur.

Fórnarlambið, sem er af erlendum uppruna, var augljóslega skelkað og niðurbrotið. Ég beið með viðkomandi þar til lögreglan kom.

Drengurinn býr ekki í hverfinu en hafði verið plataður á þennan stað í gegnum netið en þegar hann kom biðu hans ca 8 til 10 drengir á aldrinum 13 til 15 ára myndi ég giska. Hann sagði mér og lögreglu að einhver úr hópnum hefði kallað hann skítugan útlending (eða eitthvað í þá áttina) og skipað honum að sleikja skóna sína. Þegar hann neitaði var ráðist á hann og fékk hann meðal annars högg í andlitið. Einhverjir þarna voru með hnúajárn og nokkrir voru að taka atvikið upp (þetta sá ég þegar ég kom að keyrandi).

Ég deili þessu með ykkur hér því ef þið eigið börn á þessum aldri sem voru úti á þessum tíma væri ágætt að ræða við þau og jafnvel fá að skoða símana þeirra. Svona ofbeldi á auðvitað aldrei að líðast. Einnig er mikilvægt að ræða opinskátt um andúð á útlendingum sem virðist að einhverju leyti hafa verið kveikjan að þessum átökum,“ segir í færslu Sigurðar Hólm. 

Í samtali við mbl.is segir Sigurður að hann vilji hvetja fólk til þess að fylgjast með og stöðva slíkt ofbeldi ef það verður vitni að slíku. Eins að hafa í huga að þetta eru börn sem væntanlega geri sér ekki grein fyrir því hvaða afleiðingar þetta geti haft fyrir þolandann. Hann biður lesendur um að fordæma ekki þessa krakka því þau þurfi miklu frekar á aðstoð að halda en fordæmingu fólks. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert