Tvö ár á leiðinni til Þorbjargar

Þorbjörg Erla Jensdóttir fann þetta forvitnilega skeyti í Borgarfirði í …
Þorbjörg Erla Jensdóttir fann þetta forvitnilega skeyti í Borgarfirði í gærkvöldi og fannst sendandi í kvöld. Ljósmynd/Aðsend

„Við fórum í göngutúr í fjörunni á Mýrum í Borgarfirði fyrir neðan Akra. Við vorum þarna í sumarbústað,“ segir Þorbjörg Erla Jensdóttir í samtali við mbl.is. Í göngutúrnum fannst flöskupóstur frá sex ára stúlku og var hann ritaður á norsku. Sendandinn er fundinn, en skeytið var sent fyrir tveimur árum.

Þorbjörg segist hafa verið að dást að því hvað fjaran var hrein, en að hún hafi komið auga á flösku frá Imsland, framleiðenda í Noregi. „Ég þekkti merkið og við gátum ekki opnað flöskuna svo við fórum með hana í bústaðinn og opnuðum hana þar.“

Í bréfi flöskupóstsins stendur: „Hæ. Ég er 6 ára. Ég á stórabróður sem heitir Ask. Oda.“

Skera þurfti neðri hluta flöskunnar til þess að ná skeytinu …
Skera þurfti neðri hluta flöskunnar til þess að ná skeytinu úr henni. Ljósmynd/Aðsend

Þorbjörg segist hafa sagt frá fundinum á Facebook í gærkvöldi. „Í morgun setti ég þetta síðan inn á norsku, þar sem ég hef búið í Noregi og þekki nokkra þar. Allt í einu fæ ég símhringingu frá einni sem ég þekki sem býr rétt fyrir utan Ósló og sagði að henni henni hafi fundist þetta svo æðislegt að hún hringdi í Verdens Gang.“

Birt var frétt um málið á vef VG um hádegisbil í dag, en fyrir um klukkutíma sagði miðillinn frá því að eigandinn hafi verið fundinn.

Kort/Google

Sagt er að líklegast hafi það verið átta ára Oda Jacobsen frá Bleik á Andøya í Norður-Noregi sem sendi skeytið fyrir tveimur árum, en hún sendi slíkt skeyti og á eldri bróður sem heitir einmitt Ask.

„Þetta er minn regnbogi sagði Oda þegar ég sýndi henni fréttina,“ segir Tonje Jacobsen, móðir stúlkunnar, við VG. „Það urðu svakaleg fagnaðarlæti hér.“

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert