Tímabundin lokun göngustígsins

Ljósmynd/Aðsend

Göngustígnum um urð norðan megin við Seljalandsfoss hefur verið lokað tímabundið og mun lokunin líklega vara fram yfir helgi. Frá þessu er greint á Facebook-síðu Rangárþings eystra. Hægt verður að ganga á bak við fossinn sunnan megin og þá aftur sömu leið til baka.

Vorleysingar eru ástæðan fyrir lokuninni en eftir rigningar að undanförnu mun moldarbarð hafa hrunið á göngustíginn með þeim afleiðingum að mjög hált er á honum og óþrifalegt.  Hefur stígnum því verið lokað á meðan lagfæringar fara fram.

Hægt er áfram að fara á bak við fossinn sunnan megin upp járntröppur sem þar eru en fara verður sömu leið til baka sem fyrr segir. Einnig er hægt að fara upp timburtröppur norðan megin og upp á pall sem þar er fyrir ofan.

Tækifærið hefur verið notað til að fella niður tvo stóra steina sem voru orðnir losaralegir og hætta stafaði af. Beðið er nú eftir að rigningin og fossúðinn skoli moldinni og hálkunni af stígnum svo hægt verði að opna göngustíginn aftur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert