Framganga Isavia ófyrirleitin og óskiljanleg

Bandaríska flugvélaleigan Air Lease Corporation (ALC) hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem segir að hún áskilji sér allan rétt til að krefja Isavia og íslenska ríkið um bætur vegna tjóns sem félagið telur sig hafa orðið fyrir vegna þess að Isavia hafi komið í veg fyrir brottför farþegaþotu félagsins, Airbus A321 TF-GPA, frá Keflavík sem meinuð hafi verið brottför frá gjaldþroti WOW air fyrir tæpum fjórum vikum.

Fram kemur að Isavia ætli ekki að láta farþegaþotuna af hendi nema ALC standi skil á tveggja milljarða króna skuld WOW air við Keflavíkurflugvöll sem safnast hafi upp fyrir fall flugfélagsins. „ALC telur fráleitt að lögaðili á Íslandi geti lagt fram eigur annara sem veð og undrast að opinbert hlutafélag taki þátt í samkomulagi um slíkt og telji það í samræmi við ákvæði loftferðalaga. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir hefur Isavia ekki heldur fengist til að leggja fram sundurliðun gjaldanna að baki skuld WOW air.“

Dómsmál ALC á hendur Isavia vegna málsins var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness á þriðjudag og hefur Isavia vikufrest til að leggja fram greinargerð og afla gagna. Málflutningur fer fram 2. maí. „ALC telur að með framgöngu sinni hafi Isavia brotið gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrár, auk þess sem WOW air, vegna gjaldþrots síns, hafi ekki lengur haft yfirráð yfir farþegaþotunni þegar henni var meinuð brottför og því geti Isavia ekki byggt á heimild loftferðalaga til að stöðva för þotunnar.“

Ennfremur segir að tjón ALC vegna aðgerða Isavia sé umtalsvert og aukist með hverjum degi þar sem búið hafi verið að skrifa undir samninga um að leigja þotuna til annars flugfélags. WOW air hafði samþykkt fyrir gjaldþrot þess að afhenda ALC hana nú í apríl.

Var aldrei upplýst um að þotan væri trygging

Haft er eftir Steve Udvar-Házy, stofnanda og starfandi stjórnarformanni Air Lease Corporation, að framganga Isavia sé í senn ófyrirleitin og óskiljanleg. Þá veki málatilbúnaðurinn allur upp alvarlegar spurningar um framgöngu Isavia og hvernig fyrirtækið hafi gert upp á milli flugrekenda. Þannig hafi WOW air verið heimilað að safna fordæmalausum skuldum við Isavia á meðan önnur flugfélög þurft að greiða öll flugvallargjöld á réttum tíma.

„Ekki er að sjá að stuðningur Isavia við einn flugrekanda umfram aðra eigi nokkra stoð í lögum eða reglum. Einnig hlýtur að vekja spurningar að Isavia skuli hafa á laun samið við WOW air um að flugfélagið hefði öllum stundum flugvél í eigu annarra á Keflavíkurflugvelli sem tryggingu. ALC, sem einn af leigusölum WOW air, var aldrei upplýst um að eigur félagsins væru notaðar með þessum hætti og hefði aldrei samþykkt það.“

Þá segir í fréttatilkynningunni að ALC komi til með að leita allra leiða til að fá ákvörðunum Isavia hnekkt og endurheimta réttmæta eign sína. „Félagið mun leita liðsinnis hverra þeirra stofnana sem að þessum málum koma og láta sig varða viðskipti fyrirtækja á alþjóðavettvangi, svo sem til Alþjóðasambands flugfélaga (IATA), Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO), stjórnvalda í Bandaríkjunum og stofnana Evrópusambandsins. Málið hefur þegar valdið Íslandi og íslenskum stjórnvöldum álitshnekki og fylgjast fyrirtæki í flugiðnaði af áhuga með framvindunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert