Benda á ný gögn um skaðsemi hvalveiða

Langreyður dregin inn í hvalstöðina í Hvalfirði.
Langreyður dregin inn í hvalstöðina í Hvalfirði. mbl.is/Golli

Hvalveiðar hafa skaðleg áhrif á sölu íslenskra afurða á mörkuðum í Bandaríkjunum og Kanada ef marka má neytendakannanir vestanhafs. Niðurstöður gefa til kynna að tæplega helmingur aðspurðra muni sniðganga afurðir frá landi sem stundar hvalveiðar.

Náttúruverndarsamtökin Jarðarvinir, sem athafnamaðurinn Ole Anton Bieltvedt leiðir, benda á þetta í opnu bréfi sem þeir senda til forráðamanna Hvals hf. og byggja á gögnum úr utanríkisráðuneytinu sem kennd eru við „Iceland Naturally“ verkefnið. Gögnin hafa þó ekki verið birt opinberlega.

Á heimasíðu Íslandsstofu segir að Iceland Naturally sé markaðs- og kynningarverkefni aðila með hagsmuni á mörkuðum í Norður-Ameríku. Markmið verkefnisins sé að auka áhuga á Íslandi, íslenskum afurðum og þjónustu og á Íslandi sem áfangastað. Íslandsstofa og viðskiptaþjónusta utanríkisráðuneytisins í Norður-Ameríku stýra verkefninu.

Neytendakannanir voru lagðar fyrir í Bandaríkjunum og í Kanada samkvæmt þeim gögnum sem Jarðarvinir senda frá sér frá Iceland Naturally. Úrtakið í könnunum er þó ekki nema rúmlega þúsund manns.

Afstaða úr bandarísku könnuninni um að sniðganga afurðir frá landi …
Afstaða úr bandarísku könnuninni um að sniðganga afurðir frá landi sem stundar hvalveiðar. Niðurstöður 2018 sjást í rauðu súlunni. Ljósmynd/Skjáskot úr skýrslu Iceland Naturally

49% tilbúin að sniðganga vörur í Bandaríkjunum

Samkvæmt skýrslu Iceland Naturally var neytendakönnunin í Bandaríkjunum framkvæmd í maí árið 2018 þar sem 1.127 bandarískir neytendur á aldrinum 18 til 70 ára svöruðu rafrænum spurningalista. Þar kom meðal annars fram að 53% voru mjög opin fyrir því að ferðast til Íslands og 59% voru mjög áhugasöm að læra meira um landið.

Þegar spurt var um afstöðu til hvalveiða sögðust 50% vera á móti þeim. 49% aðspurðra sögðust ætla að sniðganga afurðir frá löndum sem stunda hvalveiðar og hefur hlutfallið farið hækkandi frá fyrri könnunum, en niðurstöður eru jafnan birtar með tveggja ára millibili.

Afstaða úr kanadísku könnuninni um að sniðganga afurðir frá landi …
Afstaða úr kanadísku könnuninni um að sniðganga afurðir frá landi sem stundar hvalveiðar. Ljósmynd/Skjáskot úr skýrslu Iceland Naturally

45% tilbúin að sniðganga vörur í Kanada

Samkvæmt skýrslu Iceland Naturally var neytendakönnunin í Kanada framkvæmd í apríl árið 2017 þar sem 1.040 kanadískir neytendur á aldrinum 18 til 70 ára svöruðu rafrænum spurningalista. Þar kom meðal annars fram að 49% voru mjög opin fyrir því að ferðast til Íslands og 55% voru mjög áhugasöm að læra meira um landið.

Þegar spurt var um afstöðu til hvalveiða sögðust 56% vera á móti þeim. 45% aðspurðra sögðust ætla að sniðganga afurðir frá löndum sem stunda hvalveiðar og er það svipað hlutfall og í fyrri könnunum.

Krefjast þess veiðum verði hætt fyrir fullt og allt

Í framhaldi af þessum niðurstöðum segja Jarðarvinir að þær setji áhrif hvalveiða á sölu íslenskra afurða á erlendum mörkuðum, og þar með væntanlega á ferðaþjónustuna, í nýtt og skýrara ljós. Þetta mál varði mikla efnahagslega hagsmuni og hafi gildi fyrir alla landsmenn.

Jarðarvinir sendu því opið bréf til Hvals hf. í dag þar sem segir meðal annars að miðað við þessar niðurstöður lami hvalveiðar um helming þessara stóru markaða fyrir íslenskum framleiðsluvörum. Það sé fyrir utan þau neikvæðu áhrif sem hvalveiðar hefðu á ferðamenn sem hingað koma.

Þeim tilmælum er beint til Hvals hf. að áform um nýjar langreyðaveiðar verði teknar til endurskoðunar og þessi áform verði lögð til hliðar fyrir fullt og allt, þar sem enginn efnahagslegur tilgangur sé með þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert