Ekki lengur verkefni sérvitringa

Fjöldinn allur af fólki plokkaði rusl í dag á höfuðborgarsvæðinu …
Fjöldinn allur af fólki plokkaði rusl í dag á höfuðborgarsvæðinu og víðar. mbl.is/Árni Sæberg

Stóri plokkdagurinn var haldinn hátíðlega í dag og að sögn Einars Bárðasonar, skipuleggjanda eða „umboðsmanns“ plokkdagsins, var gífurlega góð mæting í plokkið. 

„Þetta er töluvert fram úr okkar björtustu vonum. Það er svo erfitt að breyta læki í aðgerðir. Það byrjuðu þrjátíu og eitthvað manns í Hafnarfirði og eitthvað svipað í Kópavogi svo þeir eiga fjöldametið í morgunsárið.

Það voru 20-25 manns sem byrjuðu með umhverfisráðherranum uppi í Grafarholti svo það er víðast hvar bara mjög góð mæting. Það er dúndrandi gangur suður með sjó í Reykjanesbæ og í Vogunum líka og bara rosalega gaman. Þetta er töluvert betri þátttaka en var í fyrra.“

Plokkið hófst klukkan níu í morgun og stendur til klukkan fjögur. Sjón­um var beint að Reykja­nes­braut­, Vest­ur­lands­veg­i og Suður­lands­vegi. 

Einar segir augljóst að áhugi á plokki fer vaxandi. „Það er líka orðið miklu auðtækari hugmynd fyrir fólki að drífa sig út og taka til hendinni á þennan hátt. Fólk lítur ekki bara á þetta sem verkefni fyrir sérvitringana lengur.“

Það viðraði vel til plokks þennan ágæta sunnudag.
Það viðraði vel til plokks þennan ágæta sunnudag. mbl.is/Árni Sæberg

Hrærður yfir góðri þátttöku

Ruslið safnaðist hratt saman. „Við eigum eftir að taka þetta allt saman en ég veit að það var hringt eftir fleiri pokum strax um tólfleytið í Kópavogi. Það er rosalegur kraftur og gangur í öllu. Ég er bara hrikalega þakklátur, glaður og hrærður yfir þessu.“

Þegar blaðamaður ræddi við Einar var deginum hvergi nærri lokið. „Forsetinn er á leiðinni í Garðabæ og ætlar að taka til hendinni þar í klukkutíma og allir bara beðnir um að slást í hópinn. Svo heldur þetta áfram til fjögur og þá bjóðum við þeim sem eru búnir að vera að taka til hendinni með okkur í smá matarveislu niðri í Ferðafélagi Íslands klukkan hálf fimm.“

Einar vonar að plokkið einskorðist ekki bara við einn dag á ári. „Svo er þessi dagur ekki hugsaður sem eins dags átak heldur vitundarvakning inn í framtíðina um það hvernig við eigum að haga okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert