Hlutur þotu í heildarskuld WOW air 4%

Farþegaþota ALC var kyrrsett eftir gjaldþrot WOW air.
Farþegaþota ALC var kyrrsett eftir gjaldþrot WOW air.

Farþegaþota bandarísku flugvélaleigunnar Air Lease Corporation (ALC) af tegundinni Airbus A321 TF-GPA sem Isavia kyrrsetti á Keflavíkurflugvelli vegna gjaldþrots WOW air, var notuð í leiguverkefni í karabíska hafinu frá 3. desember í fyrra til 12. mars síðastliðinn.

Nánar tiltekið flaug þotan á milli bandarísku borgarinnar Miami og Kúbu.

Þetta segir Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC, í samtali við mbl.is en fyrirtækið fékk um helgina nánari upplýsingar um tveggja milljarða skuld sem Isavia krefur ALC um vegna TF-GPA.

Eftir að þotan kom aftur til Íslands var hún í viðhaldi og fór ekki nema einu sinni í áætlunarflug, eða til Kaupmannahafnar og til baka 18. mars. Tíu dögum síðar hætti WOW air störfum. Þar með var þotan, um það bil fjóra síðustu mánuðina sem WOW air var enn starfandi, ekki í neinum rekstri á Íslandi sem bjó til lendingargjöld eða önnur notendagjöld á Keflavíkurflugvelli. Fyrir vikið nemur hlutur þotunnar í tveggja milljarða heildarskuld WOW air sem Isavia krefur ALC um, aðeins rétt um fjórum prósentum, að því er Oddur greinir frá. Það gera tæpar 87 milljónir króna.

Oddur Ástráðsson lögmaður í Héraðsdómi Reykjaness.
Oddur Ástráðsson lögmaður í Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Okkur finnst þetta enn til marks um hvað framganga Isavia er langt út fyrir öll eðlileg mörk, sérstaklega í ljósi þess að WOW air reyndi að kroppa inn á skuldina eftir að þetta samkomulag var gert síðasta haust [vegna vanskilaskuldar WOW air við Keflavíkurflugvöll]. Þannig nema þær greiðslur sem WOW air þó greiddi inn á sína skuld, eftir að TF-GPA hætti að fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli, töluvert hærri fjárhæð en sem nemur því sem tilheyrir þessari þotu,“ segir Oddur.

„Ef þeim greiðslum hefði verið ráðstafað til þessara tilteknu gjalda út af þessari þotu væri hún skuldlaus.“

Hann bendir á að Isavia haldi sig fast við það í sínum málflutningi að krefjast greiðslu allrar tveggja milljarða skuldarinnar, sem sé samt tilkomin að stórum hluta vegna flugvéla sem voru í leigu frá öðrum leigusölum en ALC.

Að sögn Odds viðurkennir ALC enga greiðsluskyldu í málinu og bendir á að Isavia kyrrsetji þotu þeirra og vilji ekki losa hana nema greiddar séu fyrir það rúmlega 2 milljarðar króna, þó svo að notendagjöldin vegna þotunnar séu ekki nema 87 milljónir. Fyrirtækið segir að ekki sé hægt að rukka annan en þann sem stofnaði til gjaldanna, sem var WOW air. Isavia geti ekki knúið annan aðila til að greiða gjöldin og heimildir í loftferðalögum dugi ekki til þess.

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Ófeigur

Fyrirtaka málsins fór fram í Héraðsdómi Reykjaness á þriðjudaginn í síðustu viku og fékk Isavia vikufrest til að leggja fram greinargerð, sem rennur því út á morgun. Málflutningur hefst á fimmtudaginn.

„Ég er mjög spenntur að sjá hverju þeir ætla að halda fram í sinni greinargerð. Þetta er með miklum ólíkindum þetta mál,“ segir Oddur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert